Kristján gerir breytingu hjá Svíum á EM

Johan Jakobsson, leikmaður Svía, reynir að brjóta sér leið fram …
Johan Jakobsson, leikmaður Svía, reynir að brjóta sér leið fram hjá Henrik Mollgaard Jensen, leikmanni Dana. AFP

Kristján Andrésson, landsliðsþjálfari Svíþjóðar í handknattleik, ætlar að gera sína fyrstu breytingu á hópnum fyrir næsta leik á Evrópumótinu sem nú stendur sem hæst í Króatíu.

Öll lið mega gera ákveðið margar breytingar á leikmannahópi sínum og eru Svíar eitt þriggja liða sem hefur ekki gert neina hingað til. Nú fyrir lokaumferðina í milliriðli ætlar Kristján hins vegar að gera breytingu samkvæmt því sem Aftonbladet greinir frá.

Þar segir að Viktor Östlund, sem lék undir stjórn Kristjáns hjá Guif í Svíþjóð fyrir nokkrum árum, sé á leið til Króatíu á meðan Johan Jakobsson er á útleið. Hann er sagður hafa meiðst, hugsanlega á höfði, en hann missti einmitt af HM í Frakklandi í fyrra vegna höfuðhöggs. Því væru engar áhættur teknar í því sambandi.

Svíþjóð mætir Noregi í lokaleik sínum í milliriðli á morgun og gæti með sigri tryggt sér sæti í undanúrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert