Mrkva var hetja Tékka

Dejan Manaskovi og Ondrej Zdrahala eigast við í leik Makedóníu …
Dejan Manaskovi og Ondrej Zdrahala eigast við í leik Makedóníu og Tékklands á EM í kvöld. AFP

Tékkar unnu dramatískan sigur á Makedóníumönnum, 25:24, í milliriðli tvö á Evrópumótinu í handknattleik karla í Vardazin í kvöld. Markvörðurinn Tomas Mrkva var hetja Tékka í leiknum þegar hann varði vítakast sem tekið var þegar leiktíminn var úti eftir að hafa farið hamförum síðasta stundarfjórðunginn. Lokamínútur leiksins voru afar spennandi.

Þar eiga Tékkar enn þá möguleika á sæti í undanúrslitum vinni þeir Slóvena á morgun.

Makedóníumenn voru með yfirhöndina í leiknum nánast frá upphafi. Þeir voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11, en fóru illa að ráði sínu oft og tíðum þegar þeir áttu þess kost að ná allt að fimm marka forskoti.

Þegar á leið síðari hálfleik benti flest til þess að Makedóníumenn myndu fara með sigur úr býtum. Þeir voru með tögl og hagldir í leiknum og náðu fimm marka forskoti þegar 17 mínútur voru til leiksloka, 20:15. Tékkar voru hins vegar ekki af baki dottnir þrátt fyrir mótbyr. Tomas Mrkva kom í markið í stað Martin Galia. Mrkva tók að verja allt hvað af tók. Jafnt og þétt minnkuðu Tékkar muninn og jöfnuðu loks, 22:22, þegar sjö mínútur voru til leiksloka. Pavel Horak kom tékkneska liðinu yfir í fyrsta sinn, 24:23, þegar þrjár og hálf mínúta voru eftir. 

Á ýmsu gekk á lokakaflanum. Makedóníumenn áttu þess kost að jafna á síðustu mínútu en glopruðu boltanum frá sér og Tékkar geystust í sókn. Þeir tóku leikhlé þegar 14 sekúndur voru eftir. Ekki tókst þeim betur til en fljótlega eftir að leikurinn hófst á ný var dæmdur á þá ruðningur. Makedóníumenn fóru fram í sókn þegar átta sekúndur voru eftir og Dejan Manaskov skoraði mark á síðustu sekúndum. Rússnesku dómarar leiksins gripu til þess ráðs að skoða upptöku af aðdraganda marksins til þess að skera úr um lögmæti þess. Eftir að hafa skoðað upptökur felldu þeir sinn dóm. Makedóníumenn fengu vítakast þar sem varnarmaður Tékka stóð innan vítateigs þegar hann braut á Manaskov í aðdraganda marksins. Manaskov fór á vítapunktinn en Mrkva markvörður dró tjöld sín fyrir markið og varði vítakastið. 

Tékkar fögnuðu en Makedóníumenn gengu hnípnir af velli eftir að hafa kastað sigrinum frá sér gegn baráttuglöðum andstæðingi. 

Filip Taleski skoraði fimm mörk fyrir Makedóníu og var markahæstur. Pavel Horak átti stórleik hjá Tékkum. Hann var markahæstur með átta mörk auk þess að vera að minnsta kosti tveggja manna maki í vörninni. Slanislav Kasparek var næstur með sex mörk. 

Staðan í riðlinum fyrir lokaumferðina er sú að Danir hafa sex stig, Spánverjar, Þjóðverjar og Tékkar hafa fjögur stig hver þjóð. Makedónía og Slóvenar þrjú stig hvor. 

Í lokaumferðinni á morgun mæta Tékkar liði Slóvena, Makedóníumenn leika við Dani og Spánverjar og Þjóðverjar eigast við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert