Áfall fyrir Alfreð og lærisveina hans

Alfreð Gíslason, þjálfari Þjóðverja.
Alfreð Gíslason, þjálfari Þjóðverja. AFP

Fimm leikmenn þýska karlalandsliðsins í handknattleik greindust með kórónuveiruna í dag en Alfreð Gíslason er þjálfari liðsins. Þetta tilkynnti þýska handknattleikssambandið á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Markvörðurinn Andreas Wolff og útileikmennirnir Kai Häfner, Timo Kastening, Lukas Mertens og Luca Witzke hafa allir greinst með veiruna.

Þeir hafa nú einangrað sig frá landsliðshóp Þýskalands en handknattleikssambandið leitar nú leiða til þess að kalla inn aðra leikmenn í þeirra stað.

Öll lið tilkynntu 35-manna æfingahóp í aðdraganda mótsins og geta Þjóðverjar leitað í þann hóp til þess að kalla inn nýja menn á mótið en þá eru Þjóðverjar einnig að skoða það að kalla inn aðra leikmenn sem voru utan æfingahópsins, fari svo að fleiri leikmenn greinist á næstunni.

Þýskaland mætir Póllandi í hreinum úrslitaleik um efsta sæti D-riðils í Bratislava á morgun en leikmennirnir fimm sem greindust í dag munu ekki ferðast með liðinu í leikinn og er óvíst hvort þeir spili meira á mótinu.

Þeir leikmenn sem greinast með veiruna á meðan mótinu stendur þurfa að fara í fimm daga einangrun hið minnsta og skila tveimur neikvæðum PCR-prófum áður en þeir geta snúið aftur á keppnisvöllinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert