„Allir þurfa að vera tilbúnir að spila“

Arnar Freyr og Aron Pálmars í hávörn í kvöld og …
Arnar Freyr og Aron Pálmars í hávörn í kvöld og Dominik Máthé hættir við að skjóta. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Arnar Freyr Arnarsson kom inn á um miðjan síðari hálfleik til að freista þess að hemja betur línumenn Ungverja þegar Ísland vann Ungverjaland á EM í handknattleik í kvöld. 

Vörn Íslands breyttist mjög til hins betra þegar Arnar kom inn á hvað þennan þátt varðar því Arnar hefur líkamlega burði til að verjast stæðilegum línumönnum. Hvernig var að koma inn á í þessum látum og þetta seint í leiknum þegar spennan var mikil?

„Það var bara mjög gaman. Manni finnst geggjað þegar maður getur hjálpað liðinu að stoppa þessar sóknir hjá Ungverjunum. Við ákvaðum að vera aðeins aftar í vörninni í síðari hálfleik og það hentar mér kannski aðeins betur,“ sagði Arnar þegar mbl.is spjallaði við hann að leiknum loknum. 

„Þetta er liðsvinna og það þurfa allir að vera tilbúnir að spila. Ég spilaði ekki mikið í þessum leik en kom inn á þegar 10-15 mínútur voru eftir og hafði verið tilbúinn til að koma inn á allan tímann,“ sagði Arnar en hvernig fara menn að því að halda einbeitingu þegar þeir hafa setið fyrir utan síðan í fyrsta leiknum? 

„Maður þarf að halda einbeitingunni og vera alltaf tilbúinn. Það er lykillinn að þessu. Vera ekki að pæla í öðru en þínu hlutverki. Þá getur maður nýtt tækifærið þegar kallið kemur.“

Íslendingar fagna sigrinum í kvöld. Frá vinstri Teitur Örn Einarsson, …
Íslendingar fagna sigrinum í kvöld. Frá vinstri Teitur Örn Einarsson, Bjarki Már Elísson, Orri Freyr Þorkelsson, Ólafur Guðmundsson (13), Arnar Freyr Arnarsson fyrir miðri mynd, Elliði Snær Viðarsson, VIktor Gísli Hallgrímsson, Elvar Örn Jónsson, Aron Pálmarsson og Björgvin Páll Gústavsson. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Arnar lék töluvert í fyrsta leiknum gegn Portúgal en fékk þá tvívegis tveggja mínútna brottvísanir. Hann fékk einnig brottvísun seint í leiknum í kvöld. Er Arnar svona harðhentur? 

„Þessi brottvísun í dag var rosalega „soft“. Ég kom ekki við hann og hann lét sig bara detta. Brottvísanirnar í fyrsta leiknum áttu líklega rétt á sér en ég ætla að segja að þessi brottvísun í dag hafi ekki verið rétt. Maður tekur kannski hart á andstæðingunum en það er bara skemmtilegt,“ sagði Arnar Freyr og glotti. 

Arnar Freyr Arnarsson.
Arnar Freyr Arnarsson. Ljósmynd/Szilvia Micheller
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert