Tottenham jók vandræði Fulham

Tottenham hafði í dag betur gegn Fulham, 3:1 í 35. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Tottenham er áfram í 6. sæti deildarinnar eftir sigurinn og hefur nú 63 stig, fjórum stigum frá Meistaradeildarsæti. Fulham er eftir sem áður í fallsæti, í 18. sæti með 30 stig.

Brasilíumaðurinn Paulinho kom Tottenham yfir á 35. mínútu með skoti af stuttu færi eftir aukaspyrnu Christian Eriksen sem átti góðan leik hjá Tottenham í dag. Steve Sidwell jafnaði aðeins tveimur mínútum síðar fyrir Fulham eftir að hafa prjónað sig í gegnum vörn Tottenham. Harry Kane kom Tottenham yfir á ný þegar hann skallað fyrirgjöf Aaron Lennon í mark Fulham í upphafi síðari hálfleiks og Younes Kaboul gulltryggði 3:1-sigur Tottenham þegar hann skoraði af stuttu færi eftir aukaspyrnu Eriksen.

Hugo Lloris markvörður Tottenham átti góðan leik í dag og varði meðal annars vítaspyrnu frá Steve Sidwell í stöðunni 3:1 þegar stundarfjórðungur var til leiksloka.

Gylfi Þór Sigurðsson var á varamannabekk Tottenham í dag en kom ekkert við sögu í leiknum.

Fylgst var með því helsta í leiknum í textalýsingu hér á mbl.is og má sjá hana hér fyrir neðan.

Úrslit leiksins
Tottenham - Fulham, 3:1
Paulinho 35., Harry Kane 48., Younes Kaboul 62. - Steve Sidwell 37.

90. - LEIK LOKIÐ með 3:1 sigri Tottenham.

85. - Tim Sherwood stjóri Tottenham hefur nýtt allar sínar skiptingar í leiknum og þá er ljóst að Gylfi Þór Sigurðsson kemur ekkert við sögu í leiknum þar sem hann er ekki einn þeirra þriggja sem Sherwood hefur skipt inn á.

77. - Hugo Lloris markvörður Tottenham gerir sér lítið fyrir og ver vítaspyrnu Steve Sidwell.

76. - VÍTI! Lee Probert dómari leiksins dæmir réttilega vítaspyrnu á Tottenham eftir að Christian Eriksen handlék knöttinn í eigin vítateig.

62. - MARK!! 3:1. Tottenham fékk aukaspyrnu vinstra megin við vítateig Fulham. Christian Eriksen tók spyrnuna og sendi boltann fyrir markið, beint á Younes Kaboul sem skoraði af stuttu færi. Sama uppskrift og í fyrsta markinu.

51. - Hugo Lloris markvörður Tottenham ver meistaralega skalla Hugo Rodallega.

48. - MARK!! 2:1. Aaron Lennon átti fína fyrirgjöf inn á teig Fulham hægra meginn við vítateiginn. Harry Kane stökk manna hæst og stangaði knötinn í markið og kom Tottenham í 2:1.

46. - Síðari hálfleikur er hafinn.

45. - Fyrri hálfleik er lokið á White Hart Lane. Hálfleikstölur eru 1:1.

37. - MARK!! 1:1. Leikmenn Fulham prjónuðu sig í gegnum vörn Tottenham og það var Steve Sidwell sem komst alla leið inn á teiginn gegn Hugo Lloris markverði Tottenham. Sidwell afgreiddi boltann laglega í netið þrátt fyrir að hafa varnarmenn Tottenham aftan í sér, og jafnaði leikinn í 1:1.

35. - MARK!! 1:0. Christian Eriksen tók aukaspyrnu rétt utan vítateigs Fulham. Hann spyrnti boltanum í boga inn á teiginn þar sem knötturinn datt fyrir fætur Paulinho sem sendi boltann í markið af stuttu færi án þess að Fulham kæmi nokkrum vörnum við.

27. - Aaron Lennon hjá Tottenham fékk sendingu frá Eriksen þar sem Lennon stóð alveg upp við mark Fulham. Lennon skaut viðstöðulaust en Stockdale varði skot hans í stöngina og út.

18. - Christian Eriksen tók hornspyrnu hjá Tottenham. Leikmönnum Fulham mistókst að skalla boltann almennilega frá markinu, þannig Younes Kaboul fékk gott skallafæri á markteig Fulham, en skallaði boltann rétt yfir markið.

13. - Harry Kane leikmaður Tottenham átti laglegan sprett fram vinstri kantinn, komst upp að endamörkum og átti fyrirgjöf, en boltinn endaði í öruggum höndum Stockdale markvarðar Fulham.

1. - Leikurinn er farinn af stað á White Hart Lane í London.

0. - Tottenham er í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 60 stig eftir 34 leiki, 7 stigum frá Meistaradeildarsæti. Fulham er í 18. sæti, sem jafnframt er fallsæti og hefur 30 stig. 

0. - Liðin eru klár og má sjá þau hér fyrir neðan. Gylfi Þór Sigurðsson byrjar á varamannabekk Tottenham í dag.

TottenhamLloris, Naughton, Kaboul, Fryers, Rose; Lennon, Chadli, Paulinho, Eriksen; Adebayor, Kane.

VaramennFriedel, Chiriches, Bentaleb, Dembele, Gylfi Þór Sigurðsson, Townsend, Soldado.

FulhamStockdale; Heitinga, Amorebieta Hangeland, Riise; Kvist, Sidwell, Parker; Dejagah, Rodallega, Kačaniklić.

VaramennStekelenburg, Karagounis, Kasami, Zverotić, Roberts, Woodrow, Bent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert