Torres lánaður til AC Milan

Fernando Torres hefur ekki staðið undir væntingum á Stamford Bridge …
Fernando Torres hefur ekki staðið undir væntingum á Stamford Bridge og er nú á leið til AC Milan að láni. AFP

Chelsea hefur komist að samkomulagi við AC Milan um að lána ítalska félaginu framherjann Fernando Torres í tvö ár. Frá þessu var greint á vef Chelsea.

Torres á eftir að gangast undir læknisskoðun og semja sjálfur við Milan um sína hagi, samkvæmt því sem segir á vef Chelsea, en fastlega má reikna með að hann leiki með ítalska liðinu í vetur.

Torres er þrítugur og kom til Chelsea árið 2011 fyrir metfé, 50 milljónir punda, frá Liverpool. Hann var dýrasti leikmaður sem enskt félag hefur keypt, allt þar til að Manchester United festi kaup á Ángel di María á dögunum. Hann hefur skorað 20 mörk í 110 deildarleikjum fyrir Chelsea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert