Ensku liðin eyddu um 163 milljörðum

Lokað var fyrir félagaskipti knattspyrnumanna milli liða í stærri deildum Evrópu klukkan 22.00 að íslenskum tíma í gærkvöld. Talsverður hasar var á leikmannamarkaðnum síðasta daginn og ekki síst hjá liðum í ensku úrvalsdeildinni, sem Íslendingar fylgjast svo spenntir með.

Gróflega má áætla að liðin 20 í ensku úrvalsdeildinni hafi eytt 835 milljónum punda á leikmannamarkaðnum í sumar samkvæmt útreikningum breska ríkisútvarpsins, BBC eða því sem nemur rúmum 163 milljörðum íslenskra króna.

Di Maria sá dýrasti

Dýrustu einstöku kaupin í sumar gerði Manchester United þegar liðið klófesti Argentínumanninn Ángel di Maria fyrir 59,7 milljónir punda sem samsvarar tæpum 11,7 milljörðum króna. Næstdýrastur var Sílebúinn Alexis Sánchez sem Arsenal greiddi Barcelona fyrir 35 milljón pund eða um 6,8 milljarða króna.

Manchester United eyddi líka mestu fé til leikmannakaupa í sumar, gróflega áætlað 150 milljónum punda og fékk fyrir þann pening leikmenn á borð við Hollendinginn Daley Blind, Ángel di Maria, spænska miðjumanninn Ander Herrera, enska bakvörðinn Luke Shaw og kólumbíska framherjann Radamel Falcao á láni. Viðskiptarýnir hjá Deloitte telur að sú upphæð sem United hefur varið til leikmannakaupa í sumar, sé sú mesta sem nokkurt enskt félag hefur eytt í einum félagaskiptaglugga.

Næst á eftir United yfir heildarfé til leikmannakaupa í sumar kemur Liverpool sem eyddi 117 milljónum punda miðað við grófa útreikninga BBC og Chelsea er svo í 3. sæti og talið hafa eytt 91,3 milljónum punda.

Lið í ensku úrvalsdeildinni eyddu margfalt meira fé til leikmannakaupa en liðin í efstu deild Spánar eða Ítalíu. Heildar fé til leikmannakaupa á Spáni í sumar var um 425 milljónir punda og um 260 milljónir punda á Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert