Wenger: Sjaldan sem maður sér svona lagað

Danny Welbeck skoraði fyrsta mark sitt fyrir Arsenal í dag.
Danny Welbeck skoraði fyrsta mark sitt fyrir Arsenal í dag. AFP

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal var ánægður með samvinnu þeirra Danny Welbeck og Mesut Özil í 3:0-sigrinum á Aston Villa í dag.

„Við unnum vel saman og vorum einbeittir frá byrjun. Við áttum mjög góðan fyrri hálfleik og stýrðum leiknum algjörlega,“ sagði Wenger.

„Í seinni hálfleiknum snerist þetta meira um að halda stöðunni. Við sóttum minna fram á við. Þetta var mjög mikilvægur leikur og góður sigur,“ sagði Wenger, en mörkin hjá Arsenal komu öll á ótrúlegum fjögurra mínútna kafla.

„Maður sér ekki svona lagað gerast oft en það var mikið áfall fyrir þá að fá á sig fyrsta markið. Þeir gátu ekki jafnað sig á því og við nýttum okkur það mjög fljótt. Eftir það var leiknum lokið,“ sagði Wenger, sem eins og áður segir hrósaði þeim Welbeck og Özil.

„Þeir náðu virkilega vel saman, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við ætluðum okkur í dag að spila Mesut fyrir framan miðjuna þeirra og það virkaði. Ég er sannfærður um að við verðum betri og betri núna,“ sagði Wenger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert