Gylfi skoraði í sigri - Arsenal úr leik

Leikmenn Southampton fagna Nathaniel Clyne eftir að hann skoraði sigurmarkið …
Leikmenn Southampton fagna Nathaniel Clyne eftir að hann skoraði sigurmarkið gegn Arsenal í kvöld. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eitt marka Swansea í kvöld þegar liðið vann öruggan sigur á Evrton, 3:0, í 32ja liða úrslitum enska deildabikarsins í knattspyrnu á Liberty-leikvanginum.

Gylfi kom Swansea í 2:0 á 65. mínútu þegar Sylvain Distin miðvörður Everton sendi boltann í þverslána á eigin marki. Gylfi var mættur á staðinn og skoraði auðveldlega. Nathan Dyer og Marvin Emnes skoruðu hin mörkin en Emnes leysti Gylfa af hólmi seint í leiknum.

Southampton skellti Arsenal á útivelli, 2:1. Alexis Sanchez kom Arsenal yfir með fallegu marki úr aukaspyrnu en Dusan Tadic jafnaði úr vítaspyrnu og Nathaniel Clyne skoraði á 39. mínútu en það reyndist sigurmarkið.

Stoke vann Sunderland 2:1 á útivelli þar sem Jozy Altidore skoraði fyrst fyrir Sunderland en Marc Muniesa svaraði tvívegis fyrir Stoke.

Aron Einar Gunnarsson spilaði allan leikinn fyrir Cardiff sem steinlá, 0:3, fyrir Bournemouth á heimavelli.

Leikur Liverpool og Middlesbrough er kominn í framlengingu en staðan var 1:1 eftir venjulegan leiktíma, og Fulham er 2:1 yfir gegn Doncaster eftir 80 mínútna leik. 

Úrslit í öðrum leikjum:

Arsenal - Southampton 1:2
Cardiff - Bournemouth 0:3
Derby - Reading 2:0
Leyton Orient - Sheffield United 0:1
MK Dons - Bradford City 2:0
Shrewsbury - Norwich 1:0
Sunderland - Stoke 1:2
Swansea - Everton 3:0

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert