City gagnrýnt fyrir leik og lélega stemningu

Fernandinho og Radja Nianggolan eigast við í leik Manchester City …
Fernandinho og Radja Nianggolan eigast við í leik Manchester City og Roma. AFP

Manchester City fær gagnrýni úr ýmsum áttum fyrir slæma byrjun sína í Meistaradeild Evrópu, bæði Manuel Pellegrini knattspyrnustjóri fyrir slaka stjórnun á liðinu, sem og stuðningsmenn félagsins.

City varð að sætta sig við jafntefli, 1:1, gegn Roma á heimavelli og enskir knattspyrnusérfræðingar gagnrýndu leik liðsins harðlega. Henry Winter hjá Daily Telegraph, einn þekktasti íþróttafréttamaður Englands, skrifaði í sitt blað: „Enn er er Manchester City refsað fyrir einfeldni í leik sínum í Meistaradeildinni og liðið á nú á hættu að komast ekki áfram. Leikaðferðin hjá Manuel Pellegrini var alltof auðlesin, liðið varð hvað eftir annað undir á miðjunni og stjórinn þurfti að grípa til björgunaraðgerða."

Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður Manchester United, var í hópi sérfræðinga í sjónvarpsútsendingu frá leiknum og hann beindi gagnrýni sinni að stuðningsmönnum City. Aðeins 37 þúsund manns mættu á leikinn en Etihad-leikvangurinn rúmar 45 þúsund manns á Evrópuleikjum.

„Þegar maður kemur á þennan völl finnur maður ekki þá stemningu sem ætti að fylgja Meistaradeildarleikjum. Ef maður fer til Liverpool, á Old Trafford eða til Chelsea, þá er sérstök stemning í gangi. Hún er ekki til staðar hérna. Skynja áhorfendur hérna virkilega ekki hversu mikil forréttindi það eru að vera með í þessari keppni? Það held ég ekki," sagði Scholes.

Þá hafa stuðningsmenn City verið gagnrýndir fyrir framkomu sína gagnvart Francesco Totti en þeir bauluðu óspart á þennan gamalkunna leikmann Roma sem setti met með því að skora mark á Etihad í gærkvöld, 38 ára gamall, og varð þar með elsti leikmaðurinn til að skora í Meistaradeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert