Wenger ánægður með Welbeck

Danny Welbeck fagnar þriðja marki sínu í kvöld.
Danny Welbeck fagnar þriðja marki sínu í kvöld. AFP

Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal sagði eftir sigurinn á Galatasaray, 4:1, í Meistaradeild Evrópu í kvöld að það hefði verið ánægjulegt að sjá Danny Welbeck skora þrennu og vonandi myndi það efla sjálfstraust framherjans enn frekar.

Arsenal keypti Welbeck af Manchester United í ágúst og hann virðist vera að falla vel inní liðið hjá Wenger.

„Hann var á réttum stað til að binda endahnútinn á nokkrar góðar sóknir í kvöld. Það er að sjálfsögðu gott að sjá að hann er smám saman að byggja upp sjálfstraust og skora mörk. Hann sýnir hvað í honum býr og eflist vonandi enn frekar við þetta. Ég er sérstaklega ánægður hve vel hann fellur inní okkar spil og svo er vinnusemi hans í takt við aðra í liðinu. Hann er mjög jákvæður, virkilegur liðsfélagi, en ekki bara markaskorari. Þetta hefur hann lært af því að spila oft úti á kanti," sagði Wenger.

Arsenal er nú með 3 stig eftir tvær umferðir í riðlakeppninni en liðið tapaði fyrir Dortmund á útivelli í fyrstu umferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert