Gerrard: Látum ekki valta yfir okkur

Steven Gerrard og félagar eiga erfitt verkefni fyrir höndum í …
Steven Gerrard og félagar eiga erfitt verkefni fyrir höndum í kvöld. AFP

„Við erum minni máttar í þessum leik og pressan er á Madrid að koma hingað og vinna okkur,“ sagði Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, við Sky Sports í aðdraganda leiksins við Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Gerrard og félagar rúlluðu yfir Real síðast þegar liðin mættust á Anfield, árið 2009, en þá urðu lokatölur 4:0. Madridingar virðast hins vegar illviðráðanlegir á þessu tímabili með Cristiano Ronaldo upp á sitt allra besta.

„Þetta eru leikirnir sem maður vill spila. Núna þurfum við að sýna fólki að bilið á milli okkar og Madrid sé ekki svo breitt. Við látum ekki valta yfir okkur og ætlum að sýna hvað við getum,“ sagði Gerrard.

Ronaldo hefur skorað 19 mörk í 12 leikjum til þessa á tímabilinu og ætlar sér sjálfsagt að skora á Anifeld í kvöld, í fyrsta sinn á ferlinum.

„Cristiano Ronaldo virðist enn vera að bæta sig, sem er algjörlega klikkað. Markatölfræðin hjá honum er ótrúleg. Við berum mikla virðingu fyrir honum og Real Madrid í heild,“ sagði Gerrard.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert