Ótrúlegt mark hjá Lamela - myndskeið

Harry Kane og Erik Lamela fagna einu markanna en þeir …
Harry Kane og Erik Lamela fagna einu markanna en þeir gerðu öll fimm mörk Tottenham í leiknum. AFP

Mark sem argentínski sóknarmaðurinn Erik Lamela skoraði fyrir Tottenham gegn Asteras Tripolis frá Grikklandi í Evrópudeild UEFA í knattspyrnu í gærkvöld hefur vakið mikla athygli.

Lamela gerði markið með svokallaðri „rabona-spyrnu“ en hann skaut viðstöðulaust frá vítateig með því að skjóta vinstri fætinum afturfyrir hælinn á þeim hægri og náði með því ótrúlega föstu og óverjandi skoti.

„Þetta var stórkostlegt mark, jafnvel eitt af þeim bestu sem við höfum séð," sagði landi Lamela, Mauricio Pochettino knattspyrnustjóri Tottenham, en lið hans vann stórsigur í leiknum á White Hart Lane, 5:1, þar sem Lamela skoraði tvö mörk og Harry Kane þrjú.

„Einu sinni skoraði ég sjálfur svona mark. Þið getið flett því upp á Youtube! Ég er ánægður fyrir hönd Eriks og þetta átti stóran þátt í okkar sigri," sagði Pochettino á fréttamannafundinum eftir leikinn. 

Spurður hversvegna hann hefði ekki sýnt mikil viðbrögð við markinu þegar það var skorað sagði Pochettino: „Ég sýni bara tilfinningar þegar ég er heima hjá mér, og uppi í rúmi!"

Markið hjá Lamela má sjá á meðfylgjandi myndskeiði:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert