Hættulegir í hverri sókn

John Terry hleypur af stað og fagnar eftir að hafa …
John Terry hleypur af stað og fagnar eftir að hafa skorað fyrsta mark Chelsea í kvöld. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea var að vonum kátur eftir stórsigur liðsins á Schalke í Gelsenkirchen í Þýskalandi í Meistaradeild Evrópu í kvöld, 5:0, en með honum tryggði Lundúnaliðið sér sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.

„Okkur tókst það og við erum komnir áfram þó við eigum einn leik eftir. Það var mikilvægt fyrir okkur, vegna þess hve desember er erfiður mánuður, að einn leikjanna, gegn Sporting Lisabon, skuli ekki skipta máli. Við þurfum ekki að vinna hann, við þurfum ekki að stigunum að halda," sagði Mourinho við Sky Sports.

John Terry, fyrirliði Chelsea, sem skoraði fyrsta markið strax á 2. mínútu, sagði að frammistaða liðsins hefði verið frábær.

„Markið sló Schalke út af laginu og þegar við vorum komnir í 3:0 var sigurinn í höfn. Sóknarleikur okkar var frábær og við vorum hættulegir í hverri einustu sókn. En það taka eftir sem áður allir þátt í því að verjast fyrir liðið," sagði Terry.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert