Þoli bara ákveðið marga kinnhesta

Darren Bent eltir Davide Santon í einum af fáum leikjum …
Darren Bent eltir Davide Santon í einum af fáum leikjum sínum fyrir Aston Villa í úrvalsdeildinni. AFP

Darren Bent segist hafa ákveðið að ganga til liðs við Brighton í ensku B-deildinni að láni frá Aston Villa vegna þess að það séu takmörk fyrir því hve marga kinnhesta sé hægt að þola.

Bent, sem er þrítugur, kom til Villa frá Sunderland fyrir 18 milljónir punda í janúar 2011. Frá því að Paul Lambert var ráðinn stjóri Villa árið 2012 hefur framherjinn aðeins spilað 13 leiki í úrvalsdeildinni fyrir liðið. Á síðustu leiktíð var þessi fyrrverandi landsliðsmaður Englands lánaður til Fulham.

„Ég vildi bara spila og var kominn að suðupunkti. Það var erfitt að fá ekki að spila á fyrstu leiktíðinni hjá Paul, en þetta var verra. Liðinu gekk illa, náði ekki að skora mörk en samt fékk maður ekki tækifæri. Það eru takmörk fyrir því hvað maður þolir marga kinnhesta,“ sagði Bent.

Villa hefur aðeins skorað 6 mörk í 12 leikjum í úrvalsdeildinni á þessari leiktíð og er í 16. sæti. Brighton hefur sömuleiðis átt erfitt uppdráttar undir stjórn Sami Hyypia eftir að Leonardo Ulloa var seldur, en hann skoraði 26 mörk í 58 leikjum fyrir liðið.

„Það vita það allir sem þekkja mig að ég vil bara leggja hart að mér og spila á laugardögum. Ég vonast eftir sæti í liði Brighton og vil gera allt til að bæta stöðu liðsins. Ég er orðinn glorhungraður í að spila fótbolta enda er orðið allt of langt síðan síðast,“ sagði Bent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert