Valdés aftur til Barcelona

Victor Valdés hefur fagnað fjölda titla með Barcelona í gegnum …
Victor Valdés hefur fagnað fjölda titla með Barcelona í gegnum árin. AFP

Markvörðurinn Victor Valdés, sem æft hefur með Manchester United að undanförnu, mun ekki semja við félagið eins og getgátur höfðu verið uppi um.

Þetta kom fyrst fram á útvarpsstöðinni Catalunya Radio og helstu fréttasíður á Spáni hafa nú einnig greint frá þessu. Valdés er kominn aftur heim til Barcelona-borgar og óvíst hvað tekur við en hann lék um árabil með Barcelona áður en hann ákvað að endurnýja ekki samning sinn við félagið síðasta vetur. Hann meiddist svo illa í mars síðastliðnum en er búinn að jafna sig af þeim meiðslum og fékk að æfa með United til að koma sér í form. Valdés er samningslaus og því frjáls ferða sinna.

Talið var að Valdés myndi jafnvel gera samning við United og taka við af David de Gea sem aðalmarkvörður ef De Gea færi til Real Madrid næsta sumar. Valdés mun hins vegar hafa verið tjáð að De Gea yrði áfram aðalmarkvörður United, og hann ekki sætt sig við að fá hlutskipti varamarkvarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert