Mignolet kveðst ávallt viðbúinn

Simon Mignolet hefur verið mikið gagnrýndur á tímabilinu.
Simon Mignolet hefur verið mikið gagnrýndur á tímabilinu. AFP

Simon Mignolet, markvörður Liverpool, segir að hann sé ávallt viðbúinn að svara kallinu frá stjóra liðsins, Brendan Rodgers. Mignolet missti sæti sitt í liðinu á dögunum en leysti Brad Jones af hólmi í fyrri hálfleik í 1:0 sigrinum á Burnley í gær.

Hann var þó langt frá því að vera öryggið uppmálað og hefur verið mikið gagnrýndur af stuðningsmönnum liðsins. „Ég tek einn leik fyrir í einu, ég legg hart að mér og reyni að vera einbeittur. Stundum eru hlutirnir erfiðir en það þarf engu að síður að takast á við hlutina. Ég er jákvæð persóna og held alltaf áfram,“ sagði Mignolet sem var tilbúinn á bekknum.

„Þegar maður er varamarkvörður verður maður engu að síður að vera klár á bekknum. Það getur allt gerst í fótbolta og þú veist ekki hvenær kallið kemur, svo undirbúningurinn hjá mér var ekkert öðruvísi en venjulega. Ég reyndi að vera rólegur þegar ég kom inná og halda einbeitingu. Ég er ánægður að hafa náð að halda hreinu,“ sagði Mignolet, en hann hefur fimm sinnum haldið hreinu í 23 leikjum á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert