Chelsea á Wembley eftir framlengingu

Chelsea er komið í úrslitaleik enska deildabikarsins í knattspyrnu eftir sigur á Liverpool í framlengdum leik á Stamford Bridge í kvöld, 1:0.

Liðin höfðu gert 1:1-jafntefli á Anfield í fyrri leiknum. Þrátt fyrir mýmörg færi á báða bóga í kvöld var staðan markalaus eftir 90 mínútur, og 1:1 samtals í einvíginu, og því var framlengt.

Reglurnar í deildabikarnum eru þannig að útivallamörk gilda ekki í venjulegum leiktíma, en taka gildi í framlengingu, og því var Chelsea með pálmann í höndunum þegar framlengingin hófst. Þar að auki skoraði Branislav Ivanovic svo eina mark kvöldsins með hörkuskalla snemma í framlengingunni, eftir aukaspyrnu Willian.

Liverpool hefði getað tryggt sér vítaspyrnukeppni með því að jafna metin en leikmenn liðsins virkuðu örþreyttir á lokamínútunum og ekki líklegir til að skora. Þeir voru hins vegar oft nærri því í venjulegum leiktíma en Thibaut Courtois varði vel í marki Chelsea líkt og Simon Mignolet í marki Liverpool.

Diego Costa var áberandi í leiknum en hann hefði átt að fá rautt spjald í fyrri hálfleik fyrir að traðka á Emre Can úti við hliðarlínu. Síðar var hann svikinn um vítaspyrnu þegar Martin Skrtel braut á framherjanum en ekkert var dæmt. Costa traðkaði einnig á Skrtel í seinni hálfleiknum og átti í ryskingum við Steven Gerrard en það var fyrst eftir þær sem hann fékk að líta gult spjald.

Chelsea mætir Tottenham eða Sheffield United í úrslitaleiknum á Wembley þann 1. mars.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

------------------------------

120. Leik lokið. Chelsea er komið áfram.

114. Chelsea-menn taka sér góðan tíma í allt þegar þeir hafa boltann. Tíminn er smám saman að fjara út.

105. Hálfleikur í framlengingu. Chelsea er á leiðinni í úrslitaleikinn á Wembley eins og sakir standa. Liverpool þarf að skora og getur með einu marki tryggt sér vítaspyrnukeppni.

102. Steven Gerrard og Diego Costa fengu báðir gult spjald eftir ryskingar sín á milli, dæmigerðar hrindingar og höfuðnudd. Costa hefur ítrekað reitt Liverpool-menn til reiði í kvöld með óíþróttamannslegum tilburðum.

100. Jordan Henderson komst í frábært skallafæri eftir fyrirgjöf frá Raheem Sterling en setti boltann framhjá marki Chelsea. Illa farið með mjög gott færi.

94. MARK! (1:0) Willian átti mjög góða aukaspyrnu frá hægri inn að markteig þar sem Branislav Ivanovic skoraði með góðum skalla, algjörlega óáreittur. Þetta breytir ekki því að Liverpool þarf að skora í framlengingunni til að geta komist áfram.

90. Venjulegum leiktíma lokið. Til að útskýra reglurnar betur þá er það þannig að útivallamörk telja ekki í venjulegum leiktíma, en þau gera það í framlengingunni. Ef staðan verður enn 0:0 á Stamford Bridge eftir framlengingu þá fer Chelsea áfram vegna útivallamarksins. Ef liðin skora sitt markið hvort í framlengingunni, og leikurinn endar því 1:1 en einvígið 2:2, tekur við vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara. Það er því ljóst að núverandi staða dugar Chelsea en Liverpool verður að skora í framlengingunni.

89. Branislav Ivanovic fékk gula spjaldið fyrir brot á Raheem Sterling vinstra megin við vítateig Chelsea. Liverpool sækir.

88. Raheem Sterling kom sér í skotfæri við vítateigsbogann en skaut vel framhjá hægri markvinklinum.

85. Fimm mínútur eftir af venjulegum leiktíma. Það virðist komin svolítil þreyta í menn eftir bráðfjörugan leik. Hvernig verða menn þá í framlengingu?

80. Það stefnir í framlengingu en enn er tími til stefnu fyrir liðin að útkljá málin í venjulegum leiktíma. Útivallamarkareglan gildir ekki í venjulegum leiktíma.

78. Azpilicueta var að koma inná fyrir Luis.

74. John Terry varð fyrstur Chelsea-manna til að fara í svörtu bókina. Hann fékk gula spjaldið fyrir að tækla Raheem Sterling niður aftan frá. Ekkert við þessu að segja.

70. Það hefur verið nóg af færum og látum í þessum leik þó að enn hafi ekki verið skorað. Mario Balotelli var að koma inná fyrir Lazar Markovic. Kannski að Ítalinn töfri eitthvað fram? Hann hefur gert lítið af því í Liverpool-búningnum.

65. Mögnuð björgun hjá Mignolet! Diego Costa fékk boltann óvænt frá Liverpool-manni í vítateignum, einn gegn Mignolet, og ætlaði framhjá Belganum en Mignolet náði að teygja aðra löppina fram og koma boltanum í burtu.

61. Chelsea var nærri því að komast yfir þegar Diego Costa átti skot úr vítateigsboganum og boltinn fór af varnarmanni en Simon Mignolet varði frábærlega með öðrum fæti. Í kjölfarið komst Liverpool í skyndisókn sem lauk með skoti Steven Gerrard rétt utan teigs, beint á Courtois. Færi á báða bóga þessa stundina.

59. Eden Hazard átti frábært skot rétt utan teigs en boltinn fór naumlega framhjá marki Liverpool.

55. Það er heitt í kolunum hérna og spurning hvort það sjóði ekki upp úr bráðum. Diego Costa og Martin Skrtel áttu í stimpingum úti við endalínu á meðan að Michael Oliver var að gefa Lucas gult spjald fyrir brot. Lucas og Jordan Henderson hafa einir fengið spjald í leiknum til þessa.

50. Cesc Fabregas er farinn af velli og Ramires kominn inná í hans stað. Fabregas virtist meiðast eitthvað við það að renna saman við John Terry.

46. Seinni hálfleikur er hafinn.

45. Hálfleikur. Staðan er enn markalaus, 0:0. Liverpool skapaði sér hættulegri færi í fyrri hálfleiknum en Chelsea var svikið um vítaspyrnu þegar brotið var á Diego Costa. Costa hefði hins vegar átt að fá rautt spjald fyrir fólskubrot á Emre Can úti við hliðarlínu, en ekkert var dæmt. Það vantar ekki fjörið í þennan leik.

30. Coutinho fór illa með vörn Chelsea og kom sér í galopið skotfæri við vítateigslínuna fyrir miðju marki, en Courtois sá við föstu skoti frá honum.

27. Alberto Moreno komst í gott færi vinstra megin í vítateig Chelsea eftir glæsilega sendingu Steven Gerrard en Thibaut Courtois kom út og lokaði markinu vel.

23. VÍTI? Martin Skrtel var stálheppinn að fá ekki dæmda á sig vítaspyrnu fyrir brot á Diego Costa í teignum. Boltinn var alveg úti við endalínu og brotið klaufalegt hjá Skrtel sem lét framherjann veiða sig í gildru, en líkt og Costa slapp með skrekkinn fyrir að traðka á Can fyrr í leiknum þá slapp Skrtel einnig nú.

17. Raheem Sterling komst í mjög álitlega stöðu í skyndisókn eftir að Zouma mistókst að skalla boltann við miðlínuna. Sterling stakk Zouma af og kom að John Terry við vítateiginn, náði að leika á hann en þá var Zouma mættur aftur og kom boltanum í burtu. Sterling hefði betur gefið á Steven Gerrard áður en hann reyndi að leika á Terry, því fyrirliðinn var mættur í mjög gott hlaup.

12. Diego Costa sýndi af sér fólsku í þeim anda sem hann hefur átt til að gera, þegar hann traðkaði ofan á ökkla Emre Can sem lá við hliðarlínuna eftir baráttu um boltann. Costa lét sem um óviljaverk væri að ræða og dómarinn sá ekki ástæðu til að aðhafast nokkuð, enda líklega ekki séð brotið.

8. Leikurinn byrjar fjörlega og bæði lið hafa búið sér til álitlegar sóknir þó að enn hafi ekki orðið til nein svakaleg færi.

1. LEIKUR HAFINN.

0. Byrjunarliðin eru klár og hægt að sjá þau hér að neðan. José Mourinho gerir níu breytingar á liðinu sem tapaði fyrir Bradford í enska bikarnum um helgina. Brendan Rodgers gerir fimm breytingar á liðinu sem gerði markalaust jafntefli við Bolton, og kemur fyrirliðinn Steven Gerrard meðal annars aftur inn í liðið.

Chelsea: Courtois, Ivanovic, Zouma, Terry, Filipe Luis, Matic, Fabregas, Willian, Oscar, Hazard, Diego Costa.
Varamenn: Cech, Azpilicueta, Cahill, Ake, Ramires, Remy, Drogba.

Liverpool: Mignolet, Can, Skrtel, Sakho, Lucas, Henderson, Moreno, Markovic, Gerrard, Coutinho, Sterling.
Varamenn: Ward, Johnson, Lovren, Lambert, Lallana, Allen, Balotelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert