Leyfið Costa að spila sinn fótbolta

Jose Mourinho fylgdist með og lagði sitt til málanna eftir …
Jose Mourinho fylgdist með og lagði sitt til málanna eftir að Diego Costa hafði traðkað á Emre Can í fyrri hálfleiknum. Dómarinn virtist ekki sjá atvikið og dæmdi ekkert. EPA

José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, vildi sem minnst tjá sig um atvikin tvö í leiknum gegn Liverpool í enska deildabikarnum í kvöld, þar sem að Diego Costa traðkaði á tveimur leikmönnum Liverpool.

Costa hefði átt að fá rautt spjald fyrir að traðka á Emre Can í fyrri hálfleiknum og svipað atvik átti sér stað í seinni hálfleik þegar Costa lenti á Martin Skrtel.

„Ég vil ekki ræða endalaust um ákvarðanir [dómara]. Ef ég á að tala um eitthvað vil ég tala um það sem ég veit. Þegar leikmaður stöðvar skyndisókn með hendinni þá er það gult spjald, og þegar leikmaður er sparkaður niður í vítateignum er það víti. Talið um Costa og vítið sem hann átti að fá, leyfið Costa að spila sinn fótbolta,“ sagði Mourinho við Sky Sports, en Costa hefði átt að fá vítaspyrnu þegar Skrtel braut á honum í fyrri hálfleik.

Mourinho var afar ánægður með að hafa slegið út Liverpool og þar með komist í úrslitaleik keppninnar sem fram fer á Wembley 1. mars.

„Þetta er nýtt Liverpool-lið og mjög erfiður mótherji. Þess vegna er ég enn ánægðari því við unnum mjög gott lið í tveimur leikjum,“ sagði Mourinho og bætti við:

„Næstbestu fréttir dagsins eru þær að Ramires minn sé kominn aftur. Fyrst og fremst er gott að hafa komist í úrslitin en einnig að fá Ramires aftur eftir margra vikna vinnu og fórnir,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert