Chelsea að landa Cuadrado?

Juan Cuadrado skorar úr vítaspyrnu fyrir Fiorentina.
Juan Cuadrado skorar úr vítaspyrnu fyrir Fiorentina. EPA

Chelsea mun ganga frá kaupum á kólumbíska kantmanninum Juan Cuadrado frá Fiorentina á næstu tveimur sólarhringum. Hann er með klásúlu í samningi sínum við ítalska félagið sem gerir hann falan fyrir 27 milljónir punda.

Þetta fullyrðir ESPN á vefmiðli sínum. Þar segir að Chelsea muni greiða 23 milljónir punda í upphafi og svo það sem upp á vanti sem bónusgreiðslur. Til þess gæti félagið hins vegar þurft að láta Andre Schürrle fara til Wolfsburg eins og orðrómur hefur verið uppi um.

Cuadrado er 26 ára gamall og hefur leikið í ítölsku A-deildinni frá árinu 2009, með Udinese, Lecce og svo Fiorentina síðustu þrjár leiktíðir. Hann hefur skorað 6 mörk í 23 leikjum í öllum keppnum á þessari leiktíð. Hann lék með liði Kólumbíu sem heillaði marga á HM í Brasilíu í sumar og skoraði þar eitt mark og lagði upp fjögur, en enginn átti fleiri stoðsendingar á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert