Ég steig ekki viljandi á hann

Diego Costa og Emre Can í leiknum á þriðjudaginn.
Diego Costa og Emre Can í leiknum á þriðjudaginn. AFP

Diego Costa, spænski framherjinn hjá Chelsea, segir að það sé ekki annað fyrir sig að gera en að sætta sig við þriggja leikja bannið sem hann fékk hjá enska knattspyrnusambandinu fyrr að stíga á Emre Can, leikmann Liverpool, í leik liðanna í deildabikarnum síðasta þriðjudag. Hann sé hinsvegar saklaus.

„Aðalmálið er að ég get farið heim að sofa með þá vitneskju að ég gerði ekkert af mér. Ég ætlaði ekki að stíga á hann - þetta var ekki viljandi gert," sagði Costa við spænska fjölmiðla í dag, en hann áfrýjaði kæru enska sambandsins, án árangurs.

„Þetta er bann, ég verð að sætta mig við það og taka því. Auðvitað er ég leiður yfir því að geta ekki hjálpað liðinu inn á vellinum. Ég er ekki að segja að ég sé einhver engill - það er ég alls ekki. Allir vita það. En ég mun alltaf spila eins og ég geri - því þannig er ég.

Ég spila þannig til að framfleyta fjölskyldu minni, þetta er mitt brauðstrit. Ég spila eins og ég geri fyrir mitt félag og fyrir stuðningsmennina, og allt það fólk sem tengist félaginu. Ég er öðruvísi utan vallar en innan, en ég mun ekki breyta mínum leikstíl," sagði Diego Costa, sem spilaði ekki gegn Manchester City í dag og verður ekki með í næstu tveimur leikjum Chelsea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert