Tókst í þriðju tilraun hjá van Gaal

Louis van Gaal gat fagnað sínum fyrsta sigri á St. …
Louis van Gaal gat fagnað sínum fyrsta sigri á St. James' Park í kvöld. AFP

Louis van Gaal vann í kvöld sinn fyrsta sigur sem knattspyrnustjóri á St. James' Park í Newcastle þegar lærisveinar hans í Manchester United unnu nauman sigur á heimamönnum, 1:0. Þetta var í þriðja sinn sem van Gaal stýrir liði á þessum velli, en í bæði skiptin þar áður hafði hann beðið ósigur.

Í fyrra skiptið var það árið 1997 þegar Hollendingurinn stýrði liði Barcelona. Liðin voru þá saman í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu þar sem Newcastle hafði sigur í frægum leik, 3:2. Faustino Asprilla skoraði þrennu fyrir Newcastle áður en Luis Enrique, sem stýrir Börsungum í dag, og Luis Figo, sem býður sig nú fram til forseta FIFA, minnkuðu muninn.

Seinni leikurinn var tíu árum síðar, nánar tiltekið árið 2007. Um var að ræða sextán liða úrslit UEFA-bikarsins sáluga þegar van Gaal kom í heimsókn með lærisveina sína í AZ Alkmaar. Grétar Rafn Steinsson var þá í liði AZ og hann skoraði sjálfsmark strax á sjöundu mínútu leiksins, en Newcastle vann leikinn að lokum 4:2. AZ vann hins vegar seinni leikinn á heimavelli 2:0 og komst áfram á útivallarmörkum.

Það má því segja að allt er þá er þrennt er fyrir Louis van Gaal á St. James' Park!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert