Sex segjast vera meiddir

Elland Road, heimavöllur Leeds.
Elland Road, heimavöllur Leeds.

Neil Redfearn, knattspyrnustjóri Leeds United, stendur frammi fyrir stóru vandamáli fyrir leik liðsins gegn Jóhanni Berg Guðmundssyni og samherjum í Charlton í ensku B-deildinni í dag því sex leikmenn tilkynntu í gærkvöld að þeir væru ekki klárir í leikinn vegna meiðsla.

Leikmennirnir sex, Mirco Antenucci, Giuseppe Bellusci, Dario Del Fabro, Marco Silvestri, Souleymane Doukara og Edgar Cani, voru flestallir keyptir til félagsins af forseta félagsins, Massimo Cellino, sem var settur í bann frá stjórnun félagsins í janúar, til 10. apríl, og það bann var síðan framlengt til 3. maí.

Talið er að leikmennirnir séu að mótmæla banninu en samkvæmt Press Association Sport, vissu hvorki Redfearn né sjúkrateymi félagsins um meiðsli hjá neinum þeirra.

Cellino fékk dóm á Ítalíu fyrir skattsvik og fyrir vikið setti enska deildakeppnin (Football League) hann í bann, þar sem hann taldist ekki uppfylla skilyrði fyrir að vera eigandi félags.

Samkvæmt BBC hafa forráðamenn Leeds neitað að tjá sig um málið. Félagið er í 15. sæti B-deildarinnar og sloppið úr fallhættu fyrir síðustu þrjár umferðirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert