Setur Liverpool pressu á United?

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool AFP

Einn leikur fer fram í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Þá tekur Hull á móti Liverpool á KC vellinum og hefst leikurinn klukkan 18.45.

Með sigri í kvöld verður Liverpool einungis fjórum stigum á eftir erkifjendum sínum í Manchester United og heldur um leið í vonina um að ná 4. sæti deildarinnar. Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði að United væri í bílstjórasætinu í baráttunni um 4. sætið.

„Við getum gert það sem í okkar valdi stendur til að ná því, með því að vinna okkar leiki. Við þurfum að byrja í kvöld gegn Hull. United á erfiðan leik gegn WBA um helgina og við höfum séð hversu erfitt er að keppa á móti liðum Tony Pulis. Við getum hins vegar eingöngu hugsað um okkar leiki,“ sagði Rodgers í viðtali við bbc.

Flestir leikmenn Liverpool eru klárir í slaginn í kvöld. Óvissa ríkir þó um þátttöku Alberto Moreno sem missti af leik liðsins gegn WBA vegna meiðsla. Mamadou Sakho, Lucas Leiva og Daniel Sturridge eru ekki leikfærir í kvöld vegna meiðsla og óvissa ríkir hvort Sturridge spili meira á yfirstandandi keppnistímabili.

Hull er í 16. sæti deildarinnar og þarf nauðsynlega á stigum að halda í harðri fallbaráttu. Sigur liðsins gegn Crystal Palace um síðustu helgi var kærkominn og Steve Bruce, stjóri liðsins, er bjartsýnn. 

„Við eigum góða möguleika á því að halda okkur uppi en eigum enn mikla baráttu fyrir höndum. Þegar við spilum á móti stórum liðum verðum við að verjast vel. Við gerðum það á móti Palace og vonandi verður svipað uppi á teningnum í kvöld.“

Hull verður án fjögurra sterkra leikmanna í kvöld. David Meyler tekur út leikbann og Curtis Davies, Robert Snodgrass og Nikica Jelavis eru á meiðslalistanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert