Nítján ára til Old Trafford á 36 milljónir

Anthony Martial með boltann í leik Mónakó og París SG …
Anthony Martial með boltann í leik Mónakó og París SG um síðustu helgi. AFP

Manchester United tilkynnti fyrir stundu að félagið hefði fest kaup á Anthony Martial, 19 ára frönskum sóknarmanni, frá Mónakó fyrir hvorki meira né minna en 36 milljónir punda.

Martial, sem skoraði 9 mörk fyrir Mónakó í 35 leikjum í frönsku 1. deildinni á síðasta tímabili og hefur verið drjúgur markaskorari fyrir yngri landslið Frakklands, telst þar með vera orðinn dýrasti táningur sögunnar.

Martial var hjá Lyon frá 14 ára aldri og spilaði þrjá deildaleiki og einn Evrópuleik með félaginu áður en hann gekk til liðs við Mónakó fyrir tveimur árum.

Í síðustu viku var Martial kallaður inní franska A-landsliðið í fyrsta skipti og er í hópnum fyrir vináttulandsleiki gegn Portúgal og Serbíu sem fram fara á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert