Ég var ekki að niðurlægja Matic

Nemanja Matic spilaði tæpan hálftíma í seinni hálfleiknum í gær.
Nemanja Matic spilaði tæpan hálftíma í seinni hálfleiknum í gær. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, segist ekki hafa smánað serbneska miðjumanninn Nemanja Matic í tapleiknum gegn Southampton í gær.

Mourinho skipti Matic inn á fyrir Ramires í upphafi seinni hálfleiks, en Ramires hafði fengið gult spjald rétt fyrir leikhlé. Eftir að Southampton komst í 3:1 skipti hann Matic hins vegar aftur af velli, og mátti þá heyra stuðningsmenn Chelsea baula í stúkunni. Mourinho segist ekki hafa átt annarra kosta völ:

„Þetta var ekki niðurlægjandi. Ég geri engum slíkt, hvorki í fótbolta né í lífinu öllu. Ef ég geri það þá er það ómeðvitað,“ sagði Mourinho.

„Ég kann vel við mína leikmenn. Ég treysti þeim og veit að þeir eru góðir, en sumir þeirra eiga erfitt uppdráttar núna og Matic er einn þeirra. Hann hefur ekki verið að spila vel, er ekki beittur í vörninni og gerir mistök með boltann,“ sagði Mourinho.

„Ég var hræddur um að Ramires yrði rekinn af velli. Ég hélt Oscar inni á því hann skapar meira. Ég hélt Fabregas vegna þess að hann höndlar pressu betur, hugsanlega vegna þess að hann mótaðist hjá Barcelona. Hann er mjög stöðugur. Þess vegna ákvað ég að taka Matic af velli en ég kann mjög vel við leikmanninn. Sambandið á milli okkar er frábært. Að ég hafi verið að niðurlægja hann? Svo sannarlega ekki,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert