Scholes þykir Schweinsteiger full varkár

Ætli Schweinsteiger sé þarna að gefa á de Gea?
Ætli Schweinsteiger sé þarna að gefa á de Gea? AFP

Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður Manchester United, segist hafa búist við meiru af þýska miðjumanninum Bastian Schweinsteiger. Sá þýski gekk til liðs við United frá Bayern München í sumar en hann var fyrirliði Þjóðverja sem urðu heimsmeistarar í fyrra.

Scholes þykir Schweinsteiger of varkár, klappa boltanum full mikið og gefa hann meira til baka en góðu hófi gegnir. „Maður býst við meiru af leikmanni eins og Schweinsteiger, sem hefur unnið Meistaradeildina og heimsmeistaramót,“ sagði Scholes.

Scholes, sem varð 11 sinnum enskur meistari með United, segir að miðjumenn eigi að koma boltanum hratt fram völlinn. „Helsta list miðjumanna felst í því að finna opnu svæðin. Þá er ég ekki að tala um svæðin aftarlega á vellinum heldur á miðjunni þar sem mestu lætin eru og koma boltanum þaðan fram á við.“

Hann segir að hluti af slöku gengi Wayne Rooney á tímabilinu sé hversu hægt boltinn kemst fram völlinn. „Schweinsteiger klappar boltanum of mikið áður en knötturinn kemst á síðasta þriðjung vallarins. Það er ástæðan fyrir því að menn eins og Rooney eru í vandræðum; þeir fá ekki þá þjónustu sem þeir þurfa.“

Scholes bendir á að samt hljóti Louis van Gaal, knattspyrnustjóri United, að vera ánægður með þennan hægagang. „Schweinsteiger gefur stöðugt til baka á markvörðinn og hann spilar í hverri viku, þannig að knattspyrnustjórinn hlýtur að vera ánægður með þann leikstíl.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert