Vinsældir Mourinho á Emirates aukast ekki

Jose Mourinho
Jose Mourinho AFP

Engin þýða virðist vera í samskiptum Jose Mourinho, knattspyrnustjóra Chelsea, og Arsene Wenger, knattspyrnustjóra Arsenal. Nú segir Mourinho í Daily Mirror að hann vonist eftir því að Arsenal fari ekki áfram í Meistaradeildinni en færir reyndar fyrir því ágæt rök.

Arsenal þarf að vinna Alfreð Finnbogason og samherja hans í Olympiacos í síðustu umferð riðlakeppninnar til að komast áfram en leikið verður í Grikklandi. Bayern München er öruggt um að komast upp úr riðlinum en spurningin er hvort gríska eða enska liðið fylgi þeim.

„Ég myndi alla jafna vilja sjá enskt lið komast áfram. Þeir (Arsenal) eru í riðli þar sem vinur minn er stjóri Olympiacos og það væri stórkostlegt fyrir hans feril ef lið hans kæmist upp úr riðlinum. Ég verð því að vera hreinskilinn og segja að ég vil sjá hann og Olympiacos komast áfram,“ hefur Daily Mirror eftir Mourinho sem á þar við Marco Silva en Mourinho bætti því við að Arsenal geti hæglega farið til Aþenu og unnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert