Klopp er stoltur af lærisveinum sínum

Klopp var brosmildur eftir leikinn í dag.
Klopp var brosmildur eftir leikinn í dag. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var ánægður eftir að lærisveinar hans sigruðu Swansea, 1:0, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Hann sagði að aðstæður hefðu reynst báðum liðum erfiðar og gestirnir frá Wales reynt á þolinmæði sinna manna með góðum varnarleik.

„Þetta var erfitt fyrir bæði lið, það var mikill vindur á vellinum. Mér fannst Swansea verjast mjög vel. Þeir hafa átt í smávandræðum í síðustu leikjum en voru þéttir í dag,“ sagði Klopp eftir leikinn.

Með sigrinum komst Liverpool upp í 6. sæti deildarinnar og er liðið nú aðeins sex stigum á eftir efstu liðunum, Manchester City og Leicester.

„Við náðum að skora eitt mark. Þetta er ekki alveg það sama og þegar við unnum Manchester City 4:1 en það er gott að vinna tvo leiki í röð og ég er stoltur af strákunum,“ bætti Klopp við.

Hann hrósaði sérstaklega frammistöðu kantmannsins Jordan Ibe. Ekki hældi hann þó sóknarleik kappans, heldur sneri hrós Þjóðverjans að varnarvinnunni. „Swansea fengu ekkert gott færi vegna þess að við vörðumst mjög vel. Taktískt séð spilaði Ibe mjög vel og það var mikil framför fyrir hann og okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert