Menn eru ekki að fara á taugum

Ekkert stress.
Ekkert stress. AFP

Knattspyrnustjóri Newcastle United, Steve McClaren, segir að leikmenn og þjálfarar liðsins séu ekki andvaka af stressi þrátt fyrir slæmt gengi upp á síðkastið. Á laugardaginn tapaði Newcastle 5:1 fyrir Crystal Palace og er liðið í næst neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Það er lykilatriði að við erum ekkert taugaveiklaðir. Ef það væru sjö eða átta leikir eftir af keppnistímabilinu væri eflaust eitthvert stress. Þá segir reynslan líka til sín,“ sagði McClaren eftir háðulegt tap Newcastle um helgina. Einhverjir stuðningsmenn liðsins eru búnir að fá nóg og heimta að stjórinn verði látinn taka pokann sinn.

„Við erum að gera hlutina rétt á hverjum degi. Ég veit af reynslu að við gerum allt rétt á æfingasvæðinu og það mun skila sér á völlinn á endanum. Það gengur samt ekki vel í augnablikinu en ég vona að vonbrigðin núna þjappi okkur saman og geri okkur sterkari fyrir komandi átök,“ bætti McClaren við.

Newcastle er sem fyrr segir í 19. og næst neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 10 stig eftir 14 leiki. Liðið hefur einungis unnið tvo af fyrstu 14 leikjunum og hefur auk þess fengið á sig flest mörk allra liða, ásamt nýliðum Bournemouth, 30 talsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert