Óskar rasistanum Vardy til hamingju

Jamie Vardy er ekki allra.
Jamie Vardy er ekki allra. AFP

„Vel gert Jamie Vardy, þú mikli rasisti.“ Þannig hljómar tíst frá blaðamanni Telegraph, Jonathan Liew. Hann lét í sér heyra á twitter eftir að sóknarmaðurinn Jamie Vardy skoraði 11. leikinn í röð í ensku úrvalsdeildinni, sem er met.

Atvik sem Liew bendir á til staðfestingar ummælum sínum átti sér stað í sumar. Þá var Vardy staddur í spilavíti ásamt liðsfélögum sínum og heyrðist þrisvar sinnum kalla „Jap“ í átt að miðaldra manni sem Vardy taldi að hefði verið að reyna að svindla. Orðið „jap“ er notað sem niðrandi ummæli um Japani.

„Ég biðst afsökunar af öllu hjarta á brotum mínum. Þetta var dómgreindarbrestur hjá mér og ég tek fulla ábyrgð á því að hegðun mín var ekki ásættanleg,“ sagði Vardy eftir atvikið í sumar.

Liew var harkalega gagnrýndur eftir að hafa kallað Vardy rasista en fjölmiðlar hafa keppst við að ausa hann lofi síðustu misseri. Fyrir þremur árum lék Vardy í utandeildinni en er núna markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar.

Liew sá ástæðu til að útskýra mál sitt frekar á Facebook og svara fyrir alla þá gagnrýni sem hann fékk. „Rasistum ætti að vera útskúfað. Þeim ætti að vera refsað harkalega og almenningsálitið ætti ekki að vera þeim í hag. Þeir ættu ekki að eiga vini eða vera í vinnu. Þeir ættu að krjúpa á kné og biðja aðra afsökunar.“

Honum þykir ekki við hæfi að Vardy sé hrósað svona mikið, í ljósi atburða sumarsins. „Vardy ætti að vera atvinnulaus. En vegna vinsælda sinna ætti hann allavega að nota hvert tækifæri til að tala opinberlega gegn rasisma. Ég skil það vel ef fólk er ekki sammála mér en það er fórnarlamb í þessu máli og það er ekki ég eða þú. Það er svo sannarlega ekki enski landsliðsmaðurinn sem getur ekki hætt að skora og allir dýrka og dá,“ sagði Liew að lokum.

Ummæli Liew á twitter má sjá hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert