Mahrez flúði Skotland á hjóli

Mahrez hefur farið á kostum í vetur.
Mahrez hefur farið á kostum í vetur. AFP

Besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, Riyad Mahrez, kunni ekki vel við sig í Skotlandi þegar hann var á reynslu hjá St Mirren þar í landi fyrir nokkrum árum.

Mahrez fór á reynslu til St Mirren áður en hann gekk til liðs við Le Havre í Frakklandi árið 2010. Honum líkaði tveggja mánaða dvölin í Skotlandi afskaplega illa og sagði að veðrið þar væri hræðilegt.

Á endanum hafði kuldinn betur og Mahrez yfirgaf Skotland í miklum flýti, fékk lánað hjól og laumaðist út af hótelinu sem hann dvaldi á.

„Mér gekk vel í fótboltanum. Ég lék fjóra æfingaleiki og skoraði sjö mörk, ég slátraði öllum. Síðan var ég látinn bíða og bíða,“ sagði Mahrez í viðtali við franska L´Equipe.

„Ég fékk nóg enda var Skotland að gera mig vitlausan. Það var ískalt allan tímann. Það snjóaði og allt saman. Það var svo kalt að einn daginn gerði ég mér upp meiðsli til þess eins að komast inn í búningsklefann,“ bætti Mahrez við.

„Leikurinn var harður og það var kalt. Við æfðum meira að segja í snjónum. Nokkrum dögum síðar sagði umboðsmaður minn mér að hún hefði sent mér miða og ég gæti tekið rútu og komið mér burt, áleiðis til Frakklands.“

Mahrez lék ekki segja sér þetta tvisvar. „Ég skildi skóna mína eftir á æfingasvæðinu. Ég fékk lánað hjól frá strák á hótelinu hótelinu og fór án þess að segja frá því. Ég fór út bakdyramegin til að forðast aðaldyrnar.“

Mahrez gekk til liðs við franska liðið Le Havre og fór þaðan til Leicester í janúar 2011. Fyrir fimm dögum var hann kjörinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar og getur tryggt Leicester fyrsta meistaratitil félagsins um helgina þegar liðið sækir Manchester United heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert