„Auðvitað jafn hissa eins og allir“

Eiður Smári í leik með Chelsea.
Eiður Smári í leik með Chelsea. Reuters

,,Ég held að allur fótboltaheimurinn sé á sama bátnum. Þetta Leicester ævintýri er hreint út sagt ótrúlegt og er í raun alveg súrrealískt. Það er gífurlegur kraftur í liðinu, mikil samheldni og liðið er svo vel innstillt,“ sagði landsliðsmaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen þegar mbl.is spurði hann út í árangur Leicester og Claudio Ranieri en félagið varð Englandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins í gærkvöld.

„Því lengra sem hefur liðið á tímabilið hefur trúin vaxið hjá liðinu að geta farið alla leið,“ segir Eiður Smári.

Efaðist ekki um Ranieri

Eiður Smári hóf sinn feril hjá Chelsea undir stjórn Ranieri og var í fjögur ár undir stjórn Ítalans, 2000 til 2004.

,,Það er alveg ótrúlegt að eftir öll liðin sem Ranieri hefur þjálfað þá endi hann með Leicester sem Englandsmeistara. Það er magnað. Hann hefur þjálfað hvert stórliðið á fætur öðru, öll bestu liðin á Ítalíu, Chelsea og toppklúbba á Spáni. Það voru margar efasemdarraddir á lofti þegar Ranieri var ráðinn stjóri Leicester en ég var ekki einn af þeim sem efaðist um hann. Hann er mjög góður þjálfari og er viðkunnanlegur maður en auðvitað er ég jafn hissa og aðrir að honum hafi tekist þetta afrek með Leicester-liðið.

,,Ranieri var ráðinn til Chelsea rétt eftir að ég kom til félagsins. Hann talaði litla sem enga ensku á þessum tíma og það tók hann smá tíma að ná til leikmanna og að kynnast fólki út á við. Það er rosalega erfitt þegar þú talar ekki tungumálið,“ segir Eiður Smári.

Hefði ekki getað skrifað betra handrit

„Ef maður horfir heilt yfir hefur Leicester verið heppið hvað varðar meiðsli en ef það hefur þurft að fylla einhver skörð þá hefur þeim tekist það. Stærsta breytingin hjá Ranieri er að hann hefur spilað á færri leikmönnum en hann gerði áður sem þjálfari. Hann var miklu meira í því að „rótera“ liðinu. Þegar þú sást síðustu 15-20 leiki liðsins þá vissir þú nánast upp á mínútu hver var að koma inná og hvernig byrjunarliðið var skipað og þetta er mesta breytingin sem ég hef tekið eftir hjá honum,“ segir Eiður Smári, sem varð enskur meistari með Chelsea árið 2005 og 2006.

„Ég held að það sé enginn að svekkja sig á því að Leicester sé Englandsmeistari. Það eru allir að samgleðjast og ég var 100% viss á því að mínir gömlu félagar í Chelsea myndu veita hjálparhönd í leiknum við Tottenham. Svo mætir karlinn á Stamford Bridge í lokaumferðinni og fær heiðursvörð. Ég held að hann hefði ekki getað skrifað betra handrit. Ég samgleðst Ranieri afskaplega mikið. Hann spilaði stórt hlutverk á mínum ferli þótt við höfum ekki alltaf verið sammála. Þá var maður ungur og sá ekki hlutina í sama ljósi og hann,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen.

Claudio Ranieri þegar hann var kynntur til leiks hjá Chelsea …
Claudio Ranieri þegar hann var kynntur til leiks hjá Chelsea árið 2000. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert