Leikmenn eiga að njóta fótboltans

Sam Allardyce, landsliðsþjálfari Englands.
Sam Allardyce, landsliðsþjálfari Englands. AFP

Sam Allardyce, nýráðinn þjálfari enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, telur sig geta náð fram því besta í enskum leikmönnum.

Allardyce telur að það sé algjört lykilatriði að leikmenn njóti knattspyrnunnar þegar þeir leika með landsliðinu en mikið hefur verið rætt og ritað um þá miklu pressu sem fylgir því að leika með landsliðinu.

„Liðsandinn og stemmningin skiptir miklu máli og þess vegna mun ég reyna að skapa góðan anda þar sem menn geta notið þess að koma í landsliðsferðir,“ sagði Allardyce á sínum fyrsta blaðamannafundi sem landsliðsþjálfari í morgun.

„Maður á að njóta fótbolta og ég hef notið fótbolta í mörg ár. Ég þarf að hjálpa leikmönnum þannig að þeir verði betri en þeir eru í dag. Það hefur virkað á öllum öðrum stöðum sem ég hef starfað,“ bætti nýráðinn landsliðsþjálfari Englands við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert