Klopp hefur engar afsakanir lengur

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist einungis hafa leikmenn í sínum herbúðum núna sem eru í félaginu að hans undirlagi, það er annaðhvort þá leikmenn sem hann hefur viljað halda hjá félaginu eða hann hefur sjálfur keypt til félagsins.

Klopp hefur fengið til liðs við sig sjö leikmenn í sumar, en Georginio Wijnaldum, Sadio Mane, Marko Grujic, Alex Manninger, Lorius Karius, Joel Matip og Ragnar Klavan hafa bæst í leikmannahóp Liverpool í sumar.

„Nú duga engar afsakanir lengur, þetta er mitt lið og nú er kominn tími á að standa sig. Ég get ekki skýlt mér bak við það lengur að mín fingraför séu ekki að öllu leyti á leikmannahópi félagsins. Við ætlum að berjast um þá titla sem eru í boði á komandi leiktíð og ég tel okkur fullfæra í það,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í dag. 

Liverpool mætir AC Milan í æfingaleik í nótt, en liðið leikur síðan þrjá æfingaleiki í viðbót áður en átökin hefjast í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla. Liverpool sækir Arsenal heim á Emirates í fyrstu umferð deildarinnar sunnudaginn 14. ágúst næstkomandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert