Íhuga að reka Allardyce

Sam Allardyce er í bullandi vandræðum.
Sam Allardyce er í bullandi vandræðum. AFP

Forkólfar enska knattspyrnusambandsins eru að íhuga að reka knattspyrnustjóra enska landsliðsins, Sam Allardyce, úr starfi samkvæmt heimildum Sky Sports fréttastöðvarinnar.

Allardyce var, eins og fram hefur komið hér á mbl.is og birtist fyrst í frétt The Daily Telegraph, tekinn upp og myndaður á veitingastað í Manchester-borg þar sem hann talaði meðal annars um það hvernig hægt væri að fara á svig við reglur sambandsins varðandi leikmenn í eigu þriðja aðila og fyrir að hafa ætlað að þiggja 400 þúsund pund fyrir.

Þá talaði hann einnig illa um og gerði grín að fyrrum þjálfurum landsliðsins, Roy Hodgson og Gary Neville, meðal annars og sagði enska knattspyrnusambandið einungis hugsa um að græða sem mestan pening.

Frétt Sky segir frá því að Allardyce þyki málið afar vandræðalegt en hann var ráðinn þjálfari liðsins fyrir einungis tveimur mánuðum.

Allardyce hyggst senda frá sér afsökunarbeiðni eins fljótt og auðið er, en telur sjálfur að það sem hann hafi sagt á myndskeiðinu hafi verið óviturlegt en beri þó ekki vitni um neina spillingu.

Innanbúðarmaður hjá enska knattspyrnusambandinu segir að Alladyce hafi sýnt dómgreindarleysi og ákveðin vantrú ríki hjá stjórnarmönnum sambandsins í ljósi þess hversu stutt Allardyce hefur verið þjálfari enska landsliðsins.

Fyrsta forgangsmál enska knattspyrnusambandsins er að taka saman allar staðreyndir málsins og fara yfir það hvort Allardyce hafi brotið lög sambandsins. Þá verður einnig farið yfir málið út frá siðferðislegu sjónarhorni og athugað hvort um hagsmunaárekstur hafi verið að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert