Mitt starf að skora fyrir Swansea City

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu fyrir Swansea City gegn …
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki sínu fyrir Swansea City gegn Chelsea fyrr á leiktíðinni. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson varð á dögunum markahæsti leikmaður Swansea City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla og í kjölfar þess birtist viðtal við hann á heimasíðu félagsins þar sem ýmislegt áhugavert kemur í ljós. 

Gylfi Þór virkar ávallt svellkaldur á ögurstundum til að mynda þegar hann tekur vítaspyrnur eða aukaspyrnur þegar mikið er undir.

„Ég næ að halda ró minni af því að ég er vel undirbúinn fyrir þessi augnablik. Ég æfi vítaspyrnur og aukaspyrnur á hverjum degi. Það skiptir miklu máli að ná að halda einbeitingunni að því eina sem skiptir máli, það er að hitta markið og koma boltanum í netið,“ sagði Gylfi Þór um ástæðu þess að hann virki svona rólegur. 

„Það er mitt starf að skora mörk fyrir Swansea City og það hefur gengið vel í gegnum tíðina. Vonandi tekst mér að halda uppteknum hætti í framtíðinni og halda áfram að bæta metið. 

Gylfi Þór virkar einnig ávallt yfirvegaður bæði þegar hann leikur með Swansea City og íslenska landsliðinu, en Gylfi Þór segir þó að undir niðri kraumi stundum reiði sem kemur hins vegar ekki fram á yfirborðið.

„Ég verð stundum reiður og þá helst út í sjálfan mig. Ég átti það til að snöggreiðast þegar ég var yngri, en ég hef lært að hemja eftir því sem árin færast yfir Þá hefur golfið hjálpað mér að hemja skapið,“ sagði Gylfi Þór um lundarfar sitt. 

Væri kylfingur ef ég hefði ekki náð svona langt í fótbolta

„Ef ég hefði ekki orðið atvinnumaður í fótbolta hefði ég líklega látið reyna á hæfileika mína í golfi. Ég er ekki sem verstur í golfi og hef mjög gaman af því að spila golf,“ sagði Gylfi Þór um sitt helsta áhugamál utan fótboltans. 

Gylfi Þór vakti verðskuldaða athygli strax á unga aldri, en tilþrif hans hjá FH og síðar Breiðabliki urðu til þess að erlend lið sýndu honum áhuga. 

„Ég held að bróðir minn og faðir minn hafti sent nokkrum erlendum félögum myndskeið af mér að spila fótbolta. Ég æfði með meðal annars með Preston North End og Reading. Fjölskylda mín komst í samband við þjálfara í unglingaakademíunni hjá Reading og ég fór fjórum eða fimm sinnum til reynslu þar áður en ég skrifaði undir þar,“ sagði Gylfi Þór um aðdraganda þess að hann varð atvinnumaður í fótbolta. 

„Það voru nokkrir íslenskir leikmenn að leika með aðalliði Reading á þeim tíma og það kann að vera ástæða þess að þeir sýndu mér áhuga og þetta gekk á endanum í gegn. Ég var 15 ára gamall þegar ég skrifaði undir og flutti síðan til Reading þegar ég var 16 ára gamall. Ég saknaði að sjálfsögðu fjölskyldunnar og vinanna á Íslandi,“ sagði Gylfi Þór um þá ákvörðun sína að flytja til Englands. 

„Ég vissi hins vegar að þetta var það sem mig langaði að gera. Mig langaði að æfa á grasi við góðar aðstæður allan ársins hring og var tilbúinn að fórna mörgu fyrir það. Foreldrar mínir fluttu síðan út til mín nokkrum mánuðum síðar. Það auðveldaði mér að yfirgefa heimahagana,“ sagði Gylfi Þór um sín fyrstu spor sem atvinnumaður í Englandi.  

Gylfi Þór lék síðan sinn fyrsta leik fyrir aðallið Reading 18 ára gamall þegar hann lék með liðinu í enska deildarbikarnum gegn Luton Town í ágúst árið 2008. Seinna á því ári var Gylfi Þór lánaður til enska D-deildarliðsins Shrewsbury Town þar sem hann skoraði sitt fyrsta deildarmark í deildarkeppni í Englandi eftir einungis 22 mínútna leik í fyrsta leik sínum með liðinu. 

Því næst lék Gylfi Þór undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar sem lánsmaður hjá C-deildarliðinu Crewe Alexandra, en þar skoraði hann þrjú mörk í 15 leikjum sínum fyrir félagið. 

Brendan Rodgers reyndist Gylfa Þór vel 

Gylfi Þór sneri síðan til baka til Reading og Brendan Rodgers gaf honum hans fyrsta tækifæri með aðallið félagsins tímabilið 2009 til 2010. Gylfi Þór sló í gegn á sínu fyrsta keppnistímabili með Reading og skoraði 20 mörk á fyrstu leiktíð sinni með félaginu. 

Frammistaða Gylfa Þórs með Reading varð til þess að þýska liðið Hoffenheim sem lék þá í efstu deild keypti hann á sex milljónir punda í ágúst árið 2010.

Gylfi Þór lék vel á fyrsta tímabili sínu með þýska liðinu, en meiðsli hans í upphafi næsta tímabils varð til þess að féll neðar í goggunarröð sinni hjá liðinu og hann endurnýjaði þá kynni sín við Brendan Rodgers og gekk til liðs við Swansea City. 

„Ég fékk fyrst tækifæri til þess að spila fyrir Swansea City. Sú staðreynd að Swansea City lék í ensku úrvalsdeildinni og að þekkti Brendan Rodgers af góðu einu varð til þess að ég var fljótur að samþykkja tilboð þeirra,“ sagði Gylfi Þór um vistaskipti sín til Swansea City. 

„Þessi félagaskipti reyndust mér afar vel. Þetta var í fyrsta skipti sem ég lék í ensku úrvalsdeildinni og ég er mjög ánægður með að hafa farið þangað. Það tók mig skamma stund að aðlagast aðstæðum hjá félaginu. Við bárum sigur úr býtum gegn Arsenal á heimavelli í fyrsta deildarleik mínum fyrir liðið og eftir það var ekki aftur snúið,“ sagði Gylfi Þór um upphafi ferils síns hjá Swansea City.

Næ vonandi að bæta við metið

Gylfi Þór opnaði síðan markareikning sinn hjá Swansea City í fjórða deildarleik sínum fyrir félagið í 2:1 sigri liðsins gegn West Bromwich Albion. Fjórum og hálfu ári síðar skoraði hann síðan sitt 26. deildarmark í 2:2 jafntefli liðsins gegn Chelsea og varð þar af leiðandi markahæsti leikmaður félagsins í ensku úrvalsdeildinni.

„Það er góð tilfinning að hafa náð þessu meti og ég er að sjálfsögðu mjög stoltur og ánægður með það. Það er mjög ánægjulegt að hafa náð að skora svona mörg mörk, sér í lagi þegar litið er til þess að spila á miðjunni. Vonandi næ ég að bæta nokkrum mörkum við og aukið forystu mína á  Wilfried Bony (sem hefur skorað 25 mörk),“ sagði Gylfi Þór um áfangann sinn. 

„Fyrsta markið mitt fyrir Swansea City, sigurmarkið gegn Manchester United í fyrsta leik mínum eftir að ég gekk til liðs við Swansea City á nýjan leik, mark sem ég skoraði af löngu færi á móti Wigan Athletic árið 2012 og aukaspyrnumark mitt gegn Arsenal koma fyrst í hugann sem eftirminnilegustu mörk mín fyrir félagið,“ sagði Gylfi Þór þegar hann var beðinn um að nefna þau mörk sem eru honum kær.  

„Mér tókst að skora 11 mörk fyrir Swansea City á síðustu leiktið og níu mörk á leiktíðinni þar á undan. Ég stefni á að skora eitthvað þar um bil á yfirstandandi leiktíð. Ég er verulega ánægður hjá Swansea City og gerði nýverið samning til 2020. Ég ætti því að geta bætt við nokkrum í viðbót,“ sagði Gylfi Þór um framhaldið. 

Gylfi Þór Sigurðsson nælir í vítaspyrnu fyrir Swansea City gegn …
Gylfi Þór Sigurðsson nælir í vítaspyrnu fyrir Swansea City gegn Chelsea fyrr á leiktíðinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert