Mútuþeginn rekinn

Tommy Wright er ekki lengur aðstoðarknattspyrnustjóri Barnsley.
Tommy Wright er ekki lengur aðstoðarknattspyrnustjóri Barnsley. Ljósmynd/Barnsley

Enska knattspyrnufélagið Barnsley hefur sagt upp aðstoðarknattspyrnustjóranum Tommy Wright í kjölfarið á umfjöllun um hann í The Telegraph.

Eins og fram hefur komið sendi The Telegraph blaðamenn til fundar við Wright sem hélt að hann væri að hitta austurlenska viðskiptajöfra. Myndband náðist af Wright þar sem hann samþykkti að taka við mútugreiðslu gegn því að hann myndi meðal annars stuðla að því að Barnsley keypti leikmenn frá umboðsskrifstofu „viðskiptamannanna“.

Í yfirlýsingu á vef Barnsley segir að brottrekstur Wright taki þegar gildi. Sú ákvörðun hafi verið tekin eftir að Wright fundaði með framkvæmdastjóranum Linton Brown í morgun. Félagið segist ekkert hafa vitað um málið fyrr en að The Telegraph greindi frá því, og að það muni sýna samvinnu við rannsókn yfirvalda eins og þörf krefji.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert