Staðinn að því að þiggja mútur

Tommy Wright hefur verið aðstoðarknattspyrnustjóri Barnsley.
Tommy Wright hefur verið aðstoðarknattspyrnustjóri Barnsley. Ljósmynd/Barnsley

Tommy Wright, aðstoðarknattspyrnustjóri enska B-deildarliðsins Barnsley, hefur orðið uppvís að því að þiggja 5.000 pund fyrir að aðstoða austurlenskt fyrirtæki við leikmannamál. Jimmy Floyd Hasselbaink gæti líka verið í slæmum málum.

Þetta kemur fram í breska blaðinu The Telegraph sem heldur áfram að fletta ofan af spillingu í enskum fótbolta. Blaðið hafði áður rætt við Sam Allardyce á fölskum forsendum, sem varð til þess að Allardyce hætti sem landsliðsþjálfari Englands.

The Telegraph beitti sömu aðferðum og í máli Allardyce til að sýna spillingu hjá knattspyrnustjórum í næstefstu deild Englands. Blaðamenn blaðsins þóttust vera austurlenskir viðskiptajöfrar frá fyrirtæki sem væri reiðubúið að greiða stjórunum pening til þess að liðka fyrir leikmannakaupum og sölum.

Blaðið sýnir myndband á heimasíðu sinni þar sem Wright sést taka við 5.000 pundum fyrir að hjálpa umboðsmanni að kaupa leikmenn frá Barnsley, og fyrir að þrýsta á að Barnsley kaupi aðra leikmenn í gegnum sömu umboðsskrifstofu. Wright hefur verið leystur frá störfum eftir að The Telegraph lét Barnsley vita af málinu.

Jimmy Floyd Hasselbaink, fyrrverandi framherji Chelsea sem nú stýrir QPR, er einnig tekinn fyrir í The Telegraph. Hann sést á myndbandi samþykkja að aðstoða austurlenskt fyrirtæki með því að ræða við fjárfesta, gegn því að fá 55.000 pund fyrir hvert skipti. Hann virtist jafnframt opinn fyrir því að kaupa leikmenn frá fyrirtækinu, þrátt fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra. Hann neitar því að hafa gert nokkuð rangt.

Massimo Cellino, eigandi Leeds United, fundaði einnig með blaðamönnunum sem þóttust vera austurlenskir viðskiptajöfrar. Hann ræddi við þá um leiðir til þess að fara framhjá reglum um eignarhald þriðja aðila á leikmönnum. Leeds United sagði í yfirlýsingu í gærkvöld að Cellino hefði ekki brotið neinar reglur.

Ensku knattspyrnudeildirnar sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fram kom að þær myndu rannsaka ásaknir um spillingu í enska boltanum. Þá segir The Telegraph líklegt að lögreglurannsókn verði sett af stað vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert