Fyrsti sigur Chelsea síðan í ágúst

Diego Costa fagnar marki sínu í dag.
Diego Costa fagnar marki sínu í dag. AFP

Fjórir leikir fóru fram í sjöundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag en Chelsea vann sinn fyrsta sigur í deildinni síðan í ágúst. Willian og Diego Costa sáu um að skora mörk Lundúnarliðsins í dag.

Antonio Conte og lærisveinar hans í Chelsea fóru tímabilið frábærlega af stað en liðið vann fyrstu þrjá leikina áður en það gerði 2:2 jafntefli gegn Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Swansea.

Síðan þá hefur liðið tapað gegn bæði Arsenal og Liverpool en sigurinn gegn Hull í dag var sá fyrsti síðan í ágúst. Brasilíski snillingurinn Willian kom Chelsea á bragðið á 61. mínútu áður en Diego Costa bætti við öðru sex mínútum síðar.

Lokatölur því 2:0 Chelsea í vil en liðið er í sjötta sæti með 13 stig. Hull er á meðan í fimmtánda sæti með 7 stig.

Í hinum þremur leikjum dagsins skiptu liðin stigunum á milli sín. Sunderland og WBA gerðu 1:1 jafntefli. Leikurinn byrjaði fjörlega og skiptust liðin á góðum færum áður en Nacer Chadli kom WBA yfir á 35. mínútu. Patrick van Aanholt reddaði þó stigi fyrir Sunderland með góðu marki á 83. mínútu.

Watford og Bournemouth gerðu þá 2:2 jafntefli. Callum Wilson skoraði annað mark sitt í deildinni er hann skoraði á 33. mínútu eftir sendingu frá Junior Stanislas. Troy Deeney jafnaði metin í byrjun síðari hálfleiks eftir fyrirgjöf Nordin Amrabat.

Joshua King kom Bournemouth aftur yfir svo áður en hinn 20 ára gamli Isaac Success jafnaði metin. Hann kom til Watford á 12,5 milljónir punda í sumar en það er metfé hjá félaginu.

West Ham og Middlesbrough skildu þá einnig jöfn 1:1. Christian Stuani kom Middlesbrough yfir áðru en Dmitri Payet tók málin í sínar hendur. Hann skoraði eitt af mörkum helgarinnar er hann hjólaði í gegnum nokkra leikmenn Middlesbrough áður en hann lagði boltann í markið.

Leikir dagsins eru eftirfarandi:

Hull City 0:2 Chelsea
Sunderland 1:1 WBA
Watford 2:2 Bournemouth
West Ham United 1:1 Middlesbrough

Leik lokið. Öllum leikjum dagsins er lokið. Þrjú jafntefli og svo náði Chelsea að vinna Hull með tveimur mörkum gegn engu.

83. MAAARK!! Sunderland 1:1 WBA. Patrick van Aanholt að ná í mikilvægt mark fyrir Sunderland og sérstaklega mikilvægt fyrir David Moyes, stjóra liðsins. Getur liðið stolið sigrinum í lokin?

67. MAAAARK!!! Hull City 0:2 Chelsea. Diego Costa að bæta við öðru marki. Vel gert hjá gestunum.

65. MAAAARK!!! Watford 2:2 Bournemouth. Isaac Success að jafna metin fyrir Watford. Þessi strákur er aðeins 20 ára gamall og keyptur fyrir metfé í sumar.

61. MAAAARK!! Hull City 0:1 Chelsea. Brasilíski snillingurinn Willian að koma gestunum yfir. Chelsea komið í gír.

63. MAAAARK!!! Watford 1:2 Bournemouth. Joshua King kemur Bournemouth yfir gegn Watford.

57. MAAARK!!! West Ham 1:1 Middlesbrough. Dmitri Payet að jafna fyrir West Ham. Það er þá líf í þeim eftir allt saman? Hörkuleikur.

51. MAAAARK!!! West Ham 0:1 Middlesbrough. Christian Stuani að koma gestunum yfir. West Ham er búið að vera í þvílíku basli síðustu vikur og það heldur bara áfram.

51. MAAAAARK!!! Watford 1:1 Bournemouth. TROY DEENEY AÐ JAFNA!! Kemur lítið á óvart að hann skori. Nordin Amrabat með stoðsendinguna.

46. Síðari hálfleikur er kominn af stað.

Hálfleikur. Aðeins tvö mörk í fjórum leikjum. Vonandi eigum við von á veislu í þeim síðari.

35. MAAAAARK!!! Sunderland 0:1 WBA. Það er komið mark í þennan leik. Nacer Chadli nýtir núna færið. Claudio Yacob vann boltann á miðsvæðinu, fann Matt Phillips sem ákvað að renna boltanum inn á Chadli. Belgíski landsliðsmaðurinn afgreiddi boltann svo laglega framhjá Jordan Pickford.

33. MAAAAARK!!! Watford 0:1 Bournemouth. Callum Wilson kemur Bournemouth yfir eftir um það bil hálftíma leik. Junior Stanislas átti fyrirgjöfina. Wilson kominn með tvö mörk á þessu tímabili.

13. Sunderland 0:0 WBA. Nú er það Nacer Chadli sem er nálægt því að koma WBA yfir hinum megin á vellinum. Það er fjör í þessum leik. Lítið að gerast í öðrum leikjum.

5. Sunderland 0:0 WBA. Jermain Defoe í dauðafæri í byrjun leiks. Hann var sloppinn einn inn fyrir vörn WBA en skot hans fór framhjá.

1. Leikirnir eru komnir af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert