Liverpool lagði Gylfa og félaga að velli

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar hans hjá Swansea City lutu í lægra haldi, 2:1, fyrir Liverpool í sjöundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Leroy Fer kom Swansea City yfir í upphafi leiksins með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar, en Roberto Firmino og James Milner tryggðu Liverpool sigurinn með mörkum sínum í seinni hálfleik. 

Swansea City var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Leroy Fer kom liðinu yfir með sínu fjórða marki í deildinni í vetur. Leikmenn Swansea City fóru illa með nokkur góð færi eftir sendingar frá Gylfa Þór Sigurðssyni. Borjan Baston fékk tvö bestu færi Swansea City til þess að skora annað mark sitt í leiknum og tvöfalda forystu liðsins, en honum brást bogalistinn í bæði skiptin. 

Það var allt annað Liverpool-lið sem mætti til leiks í seinni hálfleik og augljóst að Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri liðsins, hafði farið rækilega yfir málin í hálfleiknum. Leikmenn Liverpool náðu að setja meiri pressu á leikmenn Swansea City voru mun hreyfanlegri í sóknarleik sínum.

Þung sókn Liverpool bar síðan árangur þegar Jordan Henderson sendi laglega sendingu á Roberto Firmino sem jafnaði metin með hnitmiðuðum skalla í upphafi seinni hálfleiks. Þetta er þriðja mark Firmino í deildinni í vetur. 

Angel Rangel braut síðan á Roberto Firmino innan vítateigs Swansea City undir lok leiksins og vítaspyrna var réttilega dæmd. James Milner skoraði af miklu öryggi úr vítaspyrnunni og tryggði Liverpool fjórða sigur liðsins í röð í deildinni. Þetta var fjórða markið sem Milner skorar úr vítaspyrnu í deildinni á þessari leiktíð. 

Liverpool er í öðru sæti deildarinnar með 16 stig eftir þennan sigur og er tveimur stigum á eftir Manchester City sem trónir á toppi deildarinnar. Þetta er lengsta sigurhrina Liverpool undir stjórn Jürgen Klopp.

Swansea City er hins vegar í slæmum málum með fjögur stig í 17. sæti deildarinnar, en liðið er einu stigi frá fallsæti. Francesco Guidolin, knattspyrnustjóri Swansea City, er valtur í sessi og spurning hvort að Gylfi Þór fær nýjan knattspyrnustjóra á næstu dögum. 

90. Leik lokið með 2:1 sigri Liverpool. 

90. Mike van der Hoorn brennir af í upplögðu marktækifæri. 

85. Tvöföld skipting hjá Liverpool. Roberto Firmino og Georginio Wijnaldum fara af velli og Emre Can og Divock Origi koma inná. 

84. MAAARK. Swansea City - Liverpool, 1:2. James Milner skorar úr vítaspyrnu og kemur Liverpool yfir. Vítaspyrnan var dæmd á Angel Rangel fyrir að brjóta á Roberto Firmino. Þetta er fjórða vítið sem Milner skorar úr í deildinni á yfirstandandi leiktíð. 

77. Hættuleg hornspyrna frá Gylfa Þór Sigurðssyni, en Liveprool sleppur með skrekkinn.   

72. Skipting hjá Swansea City. Leroy Fer fer af velli og Jay Fulton kemur inná. 

70. James Milner vinnur boltann inni í vítateig Swansea City sendir boltann á Sadio Mané sem skýtur að marki Swansea City, en Kyle Naugton kemst fyrir skotið. 

68. Fínt skot hjá Nathaniel Clyne sem fer þó beint á Lukasz Fabianski sem grípur boltann.

63. Skipting hjá Swansea City. Leon Britton fer af velli og Sung-Yueng Ki kemur inná. 

61. Skipting hjá Swansea City. Wayne Routledge fer af velli og Modou Barrow kemur inná. 

57. Philippe Coutinho hársbreidd frá því að koma Liverpool yfir, en skot hans frá vítateigslínunni á vítateig Swansea City fer rétt framhjá marki Swansea City. Liverpool hefur hafði seinni hálfleikinn af miklum krafti og er mun sterkari aðilinn þessa stundina. 

54. MAAARK. Swansea City - Liverpool, 1:1. Roberto Firmino jafnar metin fyrir Liverpool með hnitmiðuðum skalla eftir fyrirgjöf frá Jordan Henderson. Rangstöðugildra Swansea City klikkaði og Firmino var einn á auðum sjó og skallaði boltann í netið. Þetta er þriðja mark Firmino í deildinni i vetur. 

53. Leon Britton, leikmaður Swansea City, er áminntur með gulu spjaldi fyrir brot. 

50. Wayne Routledge fær botann í fínu skotfæri, en ákveður að senda boltann fyrir og Livepool hreinsar boltann í burtu.  

50. Sadio Mané kemur boltanum framhjá Lukasz Fabianski, en Swansea City nær að bægja hættunni í burtu áður en Roberto Firmino kemst til boltans. 

48. Roberto Firmino með fyrsta skot Liverpool sem hittir marki. Lukasz Fabianski ver skot Firmino af löngu færi nokkuð auðveldlega. 

46. Seinni hálfleikur hafinn á Liberty Stadium. Liverpool hefur ekki tekist að ná skoti á mark Swansea City og spurning hvort að lærisveinar Jürgen Klopp bæti spilamennsku sína í seinni hálfleik. 

45. Hálfleikur á Liberty Stadium. Swansea City er 1:0 yfir, en það var Leroy Fer sem skoraði mark liðsins með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar.

44. Gylfi Þór Sigurðsson með skot beint úr aukaspyrnu sem Loris Karius á ekki í miklum vandræðum með að verja. 

38. Daniel Sturridge, leikmaður Liverpool, er áminntur með gulu spjaldi fyrir leikaraskap, en hann henti sér niður í vítateig Swansea City án þess að nokkur snerting væri til staðar. 

37. Jack Cork, leikmaður Swansea City, er áminntur með gulu spjaldi fyrir brot. 

35. Liverpool er aðeins að vakna til lífsins. Nathaniel Clyne með fyrirgjöf eftir laglega sókn Liverpool, en Swansea City bjargar í horn. Það verður ekkert úr hornspyrnu Philippe Coutinho. 

27. Gylfi Þór Sigurðsson heldur áfram að mata samherja sína með hnitmiðuðum sendingum sínum. Að þessu sinni ratar aukaspyrna Gylfa Þórs beint á kollinn á Borja sem hittir ekki markið með skalla sínum. 

25. Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, er áminntur með gulu spjaldi fyrir brot. 

23. Skipting hjá Liverpool. Adam Lallana fer af velli og Daniel Sturridge kemur inná. 

22. Gylfi Þór Sigurðsson með laglegan snúning og góða sendingu á Jack Cork sem nær skoti að marki Liverpool sem Loris Karius ver.

20. Adama Lallana fékk högg á lærið og fer meiddur af velli. Daniel Sturridge er að búa sig undir að koma inná í hans stað. 

14. Leroy Fer sem skoraði mark Swansea City í leiknum vinnur boltann af leikmönnum Liverpool og reynir skot af löngu færi sem fer yfir mark Liverpool. Swansea City hefur verið sterkari aðilinn í leiknum hingað til.  

8. MAAARK. Swansea City - Liverpool, 1:1. Borja skallar boltann fyrir markið eftir hornspyrnu frá Gylfa Þór Sigurðssyni og Leroy Fer skorar með skoti af stuttu færi og kemur Swansea City yfir. 

6. Swansea City fær fyrsta færi leiksins. Borja skallar boltann yfir í upplögðu marktækifæri eftir góða fyrirgjöf frá Wayne Routledge. 

1. Leikurinn er hafinn á Liberty Stadium. 

0. Swansea City hefur farið illa af stað í deildinni á yfirstandandi leiktíð, en liðið er í 17. sæti deildarinnar með fjögur stig eftir sex umferðir. Liverpool hefur hins vegar 13 stig og situr í fimmta sæti deildarinnar. 

0. Swansea City tapaði, 3:1, fyrir Manchester City í síðustu umferð á meðan Liverpool burstaði Hull City með fimm mörkum gegn einu. 

Byrjunarlið Swansea City: Fabianski - Rangel, van der Hoorn, Amat, Naughton, Britton, Cork, Gyfli Þór Sigurðsson, Fer, Routledge, Borja Baston. 

Byrjunarlið Liverpool: Karius - Clyne, Lovren, Matip, Milner, Henderson, Wijnaldum, Lallana, Mane, Coutinho, Firmino. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert