Við gerðum ótrúleg mistök

Jose Mourinho og Antonio Conte ræðast við eftir leik.
Jose Mourinho og Antonio Conte ræðast við eftir leik. AFP

„Við gáfum þeim frumkvæðið með því að gera ekki neitt,“ sagði José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, sem var vitanlega fúll eftir 4:0 ósigur sinna manna gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Sjá frétt mbl.is: Chelsea rótburstaði United í endurkomu Mourinho

„Við komum til leiksins með það í huga að spila sóknarleik og skapa okkur færi. Við sýndum það eftir að hafa lent 1:0 undir. Annað og þriðja markið voru úr skyndisóknum en hefðum við náð að skora hefði leikurinn snúist við,“ sagði Mourinho við Sky eftir leik.

„Við gerðum ótrúleg mistök í vörninni, einstaklingsmistök sem okkur var refsað fyrir,“ sagði Mourinho, en Chris Smalling lét fara illa með sig tvívegis í aðdraganda marka. Spurður hvernig hefði verið að koma á sinn gamla heimavöll sagði Mourinho:

„Það var bara fínt, ég var ekki að búast við neinu öðruvísi hér miðað við annars staðar. Áhorfendurnir voru líka eins og þeir eru alltaf,“ sagði Mourinho, sem talaði lengi við Antonio Conte, stjóra Chelsea, strax eftir leik.

„Orðin mín voru til hans, ekki til ykkar,“ sagði hann við fjölmiðlamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert