Lifir „hörmungarlífi“ í Manchester

Ljósmyndarar fylgjast ekki bara með José Mourinho á knattspyrnuleikvöngum.
Ljósmyndarar fylgjast ekki bara með José Mourinho á knattspyrnuleikvöngum. AFP

José Mourinho viðurkennir að hann sé alls ekki ánægður með sitt daglega líf í Manchester-borg en knattspyrnustjórinn hefur búið einn á Lowry-hótelinu í borginni síðan hann var ráðinn til Manchester United í sumar.

Mourinho segist ekki geta notið lífsins vegna þess að þegar hann komi út af hótelinu bíði hans jafnan hópur ljósmyndara.

„Ég vil bara geta rölt yfir brúna og farið á veitingastað. Ég get það ekki svo það er mjög slæmt,“ sagði Mourinho við Sky Sports.

„Fyrir mér er þetta hálfgert hörmungarlíf [e. disaster] því ég vil stundum geta gengið aðeins um og ég get það ekki,“ sagði Mourinho, sem er auk þess án fjölskyldu sinnar.

„Staðan er sú að dóttir mín verður tvítug í næstu viku, og sonur minn verður 17 eftir nokkra mánuði. Þeim gengur vel. Háskóli í London. Fótbolti í London. Vinir. Þau eru á þannig aldri að þau geta ekki elt mig eins og þau gerðu áður. Þess vegna er fjölskyldulífið talsvert öðruvísi í fyrsta sinn,“ sagði Mourinho.

Við þetta bætist að Manchester United hefur ekki gengið sem skyldi það sem af er tímabili, en liðið er sex stigum frá toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 4:0-tap gegn Chelsea á sunnudag. United mætir Manchester City í enska deildabikarnum í kvöld á Old Trafford.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert