Tilbúnir að setja 200 stuðningsmenn í bann

Mikil öryggisgæsla dugði ekki til að koma í veg fyrir …
Mikil öryggisgæsla dugði ekki til að koma í veg fyrir óeirðir á leik West Ham og Chelsea. AFP

West Ham ætlar ekki að sýna neina linkind varðandi þá stuðningsmenn liðsins sem tóku þátt í óeirðunum undir lok leiks gegn Chelsea í enska deildabikarnum í fyrrakvöld.

West Ham var með mikla öryggisgæslu á leiknum á London-leikvanginum, þar sem 5.182 stuðningsmenn Chelsea mættu, og voru lögreglumenn á leikvanginum og utan hans auk 900 öryggisgæslumanna. Það kom þó ekki í veg fyrir að svartir sauðir úr röðum stuðningsmanna West Ham brytu sér leið að Chelsea-stuðningsmönnum sem voru á leið af vellinum í lok leiks, og köstuðu að þeim ýmsu lauslegu eins og flöskum, smámynt og sætum úr stúkunni.

West Ham ætlar nú að rannsaka málið og er tilbúið að setja 200 stuðningsmenn í bann, suma hverja í ævilangt bann, vegna málsins. Farið verður yfir myndir úr öryggismyndavélum til að greina andlit sökudólganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert