Chelsea vann – tvö rauð á Etihad

Chelsea vann útisigur á Manchester City 3:1 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í stórleik helgarinnar í deildinni í dag en leikið var á Etihad. Þrjú mörk frá gestunum í seinni hálfleik skiluðu sigrinum og Chelsea náði með þessu fjögurra stiga forskoti í deildinni, er með 34 stig en Manchester City og Liverpool eru með 30 stig hvort.

City komst yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar Navas sendi fyrir markið frá hægri og Gary Cahill reyndi að hreinsa en sendi boltann í eigið mark, 1:0.

Kevin De Bruyne nýtti ekki dauðafæri til að koma City í 2:0 snemma í seinni hálfleik og það reyndist liðinu dýrkeypt. Diego Costa jafnaði á 60. mínútu og lagði svo upp mark fyrir varamanninn Willian sem skoraði eftir skyndisókn á 70. mínútu.

Rétt fyrir leikslok skoraði svo Eden Hazard þriðja markið eftir langa sendingu Alonso fram völlinn, 3:1.

Í blálokin misstu leikmenn City stjórn á sér. Sergio Agüero fékk rauða spjaldið fyrir að brjóta gróflega á David Luiz og í kjölfarið fékk Fernandino einnig rauða spjaldið fyrir að slá til Cesc Fabregas.

Leik lokið.

90. RAUTT SPJALD! Sergio Aguero og Fernandinho fá að líta rauða spjaldið. Nú er útlitið svart ef það var það ekki fyrir markið.

90. MAARK 1:3 - og þriðja mark Chelsea er komið. Eden Hazard að skora markið.

70. MAAARK 1:2- Willian að skora fyrir Chelsea og skora fyrir liðið.

60. MAARK!! 1:1 - Diego Costa að jafna metin. Hver annar? Markahæsti maður deildarinnar sem stendur.

46. Síðari hálfleikur kominn af stað.

45. MAAARK!! 1:0 - Gary Cahill varð fyrir því óláni að koma knettinum i eigið net. Úff, erfitt að fara með þetta mark inn í hálfleikinn.

42. Stefnir í markalausan fyrri hálfleik. Liðin búin að fá nokkur tækifæri í fyrri hálfleiknum en ekki nýtt þau. Þetta er í járnum.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Cesc Fabregas kemur inn í byrjunarlið Chelsea í fyrsta skipti síðan í september og tekur stöðu Nemanja Matic á miðjunni. Leroy Sane kemur í lið City fyrir Raheem Sterling sem er ekki í hópnum í dag.

Lið Manchester City: Bravo, Stones, Otamendi, Kolarov, Fernandinho, Gündogan, Navas, Sane, Silva, De Bruyne, Agüero.
Varamenn: Caballero, Sagna, Zabaleta, Clichy, Fernando, Touré, Iheanacho.

Lið Chelsea: Courtois; Azpilicueta, David Luiz, Cahill (c); Moses, Kante, Fabregas, Alonso; Pedro, Diego Costa, Hazard.
Varamenn: Begovic, Ivanovic, Aina, Chalobah, Oscar, Willian, Batshuayi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert