Steve Martin skammaður fyrir tapið

Steve Martin blandaðist óvænt inn í leik í ensku B-deildinni.
Steve Martin blandaðist óvænt inn í leik í ensku B-deildinni. AFP

Gamanleikarinn Steve Martin fléttaðist á óvæntan hátt inn í sögulegan leik Nottingham Forest og Newcastle í ensku B-deildinni í knattspyrnu í gærkvöld.

Forest vann sigur, 2:1, í leik þar sem leikmenn og stuðningsmenn Newcastle töldu sig verulega hlunnfarna af dómara leiksins – sem heitir líka Steve Martin.

Leikarinn góðkunni skrifaði á Twitter í gærkvöld að hann ætti greinilega alnafna sem væri lélegur dómari. Nú rigndi yfir hann skömmum frá þúsundum Englendinga sem héldu að hann hefði dæmt leikinn og ætluðu aldrei aftur að sjá myndirnar hans!

Dómarinn Steve Martin rak tvo leikmenn Newcastle, Jonjo Shelvey og Paul Dummett, af velli í fyrri hálfleik. Hann dæmdi tvær vítaspyrnur á Newcastle en markvörður liðsins, Karl Darlow, varði þær báðar! Þá töldu leikmenn Newcastle sig eiga að fá vítaspyrnu í leiknum auk þess sem mark var dæmt af þeim þar sem deilt var um hvort um rangstöðu hefði verið að ræða eða ekki.

Þrátt fyrir liðsmuninn náði Forest aðeins að tryggja sér sigurinn með sjálfsmarki undir lokin. Níu leikmenn Newcastle komust yfir þegar Matt Ritchie skoraði en danski framherjinn Nicklas Bendtner jafnaði fyrir Forest í byrjun síðari hálfleiks.

Annað tap Newcastle í röð en liðið er þó áfram efst í deildinni með 40 stig. Brighton er með 38 stig og gæti náð efsta sætinu í dag en Reading er með 34 stig í þriðja sæti. Forest lyfti sér með sigrinum uppí 13. sætið með 25 stig.

Steve Martin á Twitter:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert