Sánchez með þrennu gegn West Ham

Mesut Özil og Alexis Sánchez fagna eftir að Özil kom …
Mesut Özil og Alexis Sánchez fagna eftir að Özil kom Arsenal yfir í dag. AFP

Alexis Sánchez, framherjinn snjalli frá Síle, skoraði þrennu í kvöld þegar Arsenal valtaði yfir West Ham, 5:1, á Ólympíuleikvanginum í London í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Arsenal komst þar með í annað sæti deildarinnar með 31 stig en Chelsea er með 34 stig á toppnum og Liverpool og Manchester City eru með 30 stig.

West Ham situr í 17. sætinu með 12 stig, einu stigi fyrir ofan fallsæti.

Mesut Özil kom Arsenal yfir á 24. mínútu, 1:0 í hálfleik, og Sánchez bætti við mörkum á 72. og 80. mínútu. Mikið fjör var í lokin, Andy Carroll lagaði stöðuna fyrir West Ham en Alex Oxlade-Chamberlain og Sánchez svöruðu um hæl, 5:1.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

90. Leik lokið með stórsigri Arsenal!

86. MARK - 1:5. Þrenna!! Alexis Sánchez fær boltann frá Alex Oxlade-Chamberlain og lyftir honum glæsilega yfir Randolph í markinu! Veisla hjá Arsenal - niðurlæging fyrir West Ham.

84. MARK - 1:4. Ekki var Arsenal lengi að svara. Alex Oxlade-Chamberlain fær boltann rétt utan vítateigs frá Mesut Özil og hamrar hann í hægra hornið - óverjandi skot!

83. MARK - 1:3. Andy Carroll minnkar muninn fyrir West Ham með skalla eftir að Dimitry Payet skaut í þverslá úr aukaspyrnu.

81. MARK - 0:3. Hafi Alexis Sánchez ekki tryggt sigur Arsenal áðan, þá gerði hann það núna. Boltinn hrekkur til hans á vítateigslínunni og Sílemaðurinn þrumar honum með jörðu í vinstra hornið - óverjandi.

73. Andy Carroll kemur inná hjá West Ham fyrir Mark Noble.

72. MARK - 0:2. Alexis Sánchez kemur Arsenal í þægilega stöðu. Brýst inn í vítateig West Ham hægra megin og sendir boltann í fjærhornið. Glæsilega gert.

67. GULT - Laurent Koscielny hjá Arsenal fær gula spjaldið fyrir brot á Ashley Fletcher. Svarar fyrir sig!

66. Aaron Ramsey kemur inná hjá Arsenal fyrir Theo Walcott.

65. GULT - Winston Reid hjá West Ham fær gula spjaldið frir brot á Alexis Sánchez, sem átti sér stað nokkru áður en dómarinn gaf hagnað.

63. André Ayew kemur inná hjá West Ham fyrir Edimilson Fernandes.

59. GULT - Ashley Fletcher hjá West Ham fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Laurent Koscielny.

46. Seinni hálfleikur er hafinn.

45. Hálfleikur og staðan er 0:1 eftir markið frá Mesut Özil.

30. GULT - Francis Coquelin, miðjumaður Arenal, fær gula spjaldið fyrir að sparka boltanum í burtu.

24. MARK - 0:1. Verðskuldað eftir gangi leiksins. Varnarmistök hjá West Ham. Alexis Sánchez sendir á Mesut Özil sem skorar auðveldlega.

7. James Collins getur ekki leikið meira. Hann fer af velli og Álvaro Arbeloa kemur í vörn West Ham í hans stað.

6. Nokkrar tafir vegna meiðsla hjá James Collins, leikmanni West Ham, en hann heldur áfram.

1. Leikurinn er hafinn eftir einnar mínútu þögn til minningar um þá sem fórust í flugslysinu í Kolumbíu.

West Ham: Randolph, Reid, Lanzini, Obiang, Noble, Collins, Ogbonna, Fletcher, Masuaku, Payet, Fernandes.

Arsenal: Cech, Gabriel, Mustafi, Koscielny, Monreal, Coquelin, Xhaka, Walcott, Ozil, Oxlade-Chamberlain, Sánchez.

Mesut Özil skorar fyrir Arsenal.
Mesut Özil skorar fyrir Arsenal. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert