Stuðningsmenn United ekki kátir

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

Stuðningsmenn Manchester United eru ekki kátir þessa dagana enda gengur hvorki né rekur hjá liðinu undir stjórn José Mourinho.

Manchester United hefur aðeins náð að innbyrða 21 stig út úr fyrstu 14 leikjunum í ensku úrvalsdeildinni og möguleikar liðsins á að blanda sér í baráttuna um Englandsmeistaratitilinn eru hægt og bítandi að renna út í sandinn.

Manchester-liðið gerði í dag 1:1 jafntefli við Everton og hefur liðinu aðeins tekist að vinna einn leik af síðustu átta í deildinni. Það hefur líka aðeins tapað einum leik af þessum átta en United hefur gert sex jafntefli og þar að leiðandi hefur stigasöfnunin ekki verið mikil. Liðið er 13 stigum á eftir toppliði Chelsea, sem í gær vann sinn áttunda deildarsigur í röð.

United tekur á móti Tottenham á sunnudaginn en í millitíðinni fer það til Úkraínu og leikur gegn Zorya í Evrópudeildinni og þann leik þarf liðið að vinna til að komast áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert