Eyðilagði næstum drauminn

Eiður Smári í leik með Chelsea.
Eiður Smári í leik með Chelsea.

Ein vinsælasta stuðningsmannasíða enska knattspyrnufélagsins Liverpool á Facebook minnist þess er Eiður Smári Guðjohnsen, fyrrum leikmaður Chelsea, var hársbreidd frá því að eyðileggja langþráðan draum fyrir ellefu árum síðan.

Liverpool vann Meistaradeild Evrópu eftirminnilega í Istanbúl árið 2005 en eftir að hafa lent þremur mörkum undir í fyrri hálfleik kom liðið til baka og jafnaði á nokkrum mínútum í byrjun síðari hálfleiks. Liverpool kláraði svo dæmið í vítaspyrnukeppni þar sem pólski markvörðurinn Jerzy Dudek reyndist hetjan.

Enska liðið fór þó alls ekki auðvelda lið inn í úrslitaleikinn en liðið vann Bayer Leverkusen og Juventus áður en það mætti Chelsea í undanúrslitum. Fyrri leiknum lauk með markalausu jafntefli á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea, en Liverpool komst yfir með svokölluðu „draugamarki“ frá Luis Garcia í síðari leiknum á Anfield.

Markið þótti afar umdeilt en dómari leiksins taldi boltann vera inni en þá var marklínutæknin ekki orðin að veruleika. Hefði dómarinn ekki dæmt mark hefði Petr Cech, markvörður Chelsea, að öllum líkindum fengið vítaspyrnu dæmda á sig og rautt spjald fyrir að brjóta á Milan Baros.

Lokamínúturnar í leiknum voru afar dramatískar. Stuðningsmenn Liverpool tala enn um uppbótartímann á Anfield, sem var þá sex mínútur. Á lokasekúndunum fékk Eiður Smári gullið tækifæri til þess að koma Chelsea áfram er hann fékk boltann hægra megin í teignum en skot hans fór fram hjá.

Stuðningsmenn Liverpool voru sammála um það að liðið var stálheppið að fá ekki á sig mark úr þessu færi enda um sjálfan Eið Smára að ræða. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan var jafnvel sjálfur Sami Hyypia búinn að gefa upp alla von.

„Heppnin var klárlega með okkur þarna. Eiður hefði skorað úr níu af tíu færum í þessari stöðu. Hann var alltaf svo frábær að klára færin og ég skil ekki enn hvernig hann skoraði ekki,“ sagði Stephen Bell, stuðningsmaður Liverpool.

Aðrir stuðningsmenn töluðu þá um að þeir hefðu þurft að skipta um nærbuxur þegar Eiður fékk þetta færi, svo spennuþrungið var augnablikið. Hægt er að sjá myndskeið af færinu hér fyrir neðan en það byrjar á 1:09.

Eiður í dauðafærinu. Stuðningsmenn biðu eftir örlögum sínum í keppninni.
Eiður í dauðafærinu. Stuðningsmenn biðu eftir örlögum sínum í keppninni. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert