Vardy með þrennu í öruggum sigri á Man City

Leicester fagnar marki í kvöld.
Leicester fagnar marki í kvöld. AFP

Jamie Vardy er kominn í gang eftir að hafa ekki skorað fyrir Leicester í ensku úrvalsdeildinni síðan í september, en hann setti þrennu gegn Manchester City í 4:2 sigri meistaranna nú undir kvöld.

Um var að ræða lokaleik dagsins í deildinni og það dró snemma til tíðinda. Vardy kom Leicester yfir strax á þriðju mínútu eftir snarpa sókn og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Andy King með skoti utan teigs. Staðan 2:0 og fimm mínútur búnar.

Á 20. mínútu var Vardy aftur á ferðinni þegar hann skorar á ný eftir skyndisókn. Hann fór þá illa með Claudio Bravo í marki City og renndi boltanum í markið. 3:0 í hálfleik.

Ekkert var skorað framan af síðari hálfleik, en Vardy fullkomnaði þrennu sína á 78. mínútu. John Stones sendi þá afleita sendingu til baka, Vardy stal boltanum og kom honum á markið úr þröngri stöðu. Boltinn dansaði á línunni en að lokum var það marklínutæknin sem dæmdi markið gilt og staðan 4:0 fyrir Leicester.

Aleksander Kolarov minnkaði muninn fyrir City skömmu síðar fyrir City með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu, en úrslitin voru löngu ráðin. Nolito lagaði stöðuna fyrir City á lokamínútunni en þar við sat, lokatölur 4:2 fyrir Leicester.

Meistararnir jöfnuðu Stoke að stigum með sigrinum í tíunda sæti deildarinnar, en City mistókst að komast eitt upp í þriðja sætið og minnka forskot Chelsea og Arsenal í tvö stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Jamie Vardy í þann mund að skora eftir að hafa …
Jamie Vardy í þann mund að skora eftir að hafa farið fram hjá Claudio Bravo í marki Man City. AFP

90. Leik lokið. Meistararnir minna hressilega á sig!

90. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.

90. Mark! Staðan er 4:2. City lagar stöðuna enn frekar þegar varamaðurinn Nolito skorar úr teignum. Ekkert nema sárabótarmark. 

81. Mark! Staðan er 4:1. Aleksander Kolarov minnkar muninn með glæsimarki beint úr aukaspyrnu þegar hann skrúfar boltann yfir vegginn. City-menn hafa ekki fyrir því að fagna.

78. Mark! Staðan er 4:0. John Stones með hræðilega sendingu til baka, Jamie Vardy kemst inn í sendinguna og rennir honum í markið. Boltinn fer í stöngina og dansar á línunni áður en City nær að hreinsa, en marklínutæknin gaf mark. Þrenna hjá Vardy!

65. City hefur verið meira með boltann hingað til í síðari hálfleik, en vörn Leicester hefur haldið vel. Tíminn að renna út hjá Pep Guardiola og hans mönnum.

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

45. Hálfleikur. Þvílíkur fyrri hálfleikur hjá meisturunum!

35. Það hefur allt gengið á afturfótunum hjá City í fyrri hálfleik. Liðið vann ekki eina tæklingu fyrstu 35 mínúturnar, sem segir allt sem segja þarf.

20. Mark! Staðan er 3:0. Þarna eru meistararnir að minna á sig! Eftir glæsilega skyndisókn skorar Jamie Vardy sitt annað mark, eftir að hafa sólað Claudio Bravo upp úr skónum í marki City! 

5. Mark! Staðan er 2:0. Þvílík byrjun á þessum leik!! Nú er það Andy King sem skorar og þvílíkt mark! Aftur er það Slimani sem leggur upp, renndi boltanum út þar sem King þrumaði á markið utan teigs og beint upp í hornið! 

3. Mark! Staðan er 1:0. Meistararnir eru komnir yfir! Jamie Vardy minnir loksins á sig og skorar eftir snarpa sókn. Slimani með stungusendingu og Vardy klárar færið með glæsibrag. Fyrsta mark hans í sextán leikjum, eða síðan í september!

1. Leikurinn er hafinn.

0. Byrjunarliðin eru klár og þau má sjá hér að neðan.

Leicester: Zieler, Simpson, Morgan, Huth, Fuchs, Mahrez, King, Amartey, Albrighton, Slimani, Vardy.

Man City: Bravo, Sagna, Zabaleta, Kolarov, Stones, Fernando, Gundogan, Navas, De Bruyne, Silva, Iheanacho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert